Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar er hægt að finna sanna von?

Hvar er hægt að finna sanna von?

Hvar er hægt að finna sanna von?

ÚRIÐ þitt hefur stöðvast og virðist vera bilað. Þegar þú athugar möguleika á viðgerð er margt í boði. Þeir sem taka að sér að gera við úr segjast allir vera með bestu þjónustuna en aðferðirnar eru ólíkar. En segjum að snillingurinn sem hannaði úrið fyrir mörgum árum sé nágranni þinn og það sem meira er, þú kemst að því að hann er tilbúinn að gera við úrið án endurgjalds. Þú þyrftir ekki að hugsa þig lengi um.

Berum nú dæmið um úrið saman við möguleikann á að hafa von. Hvert geturðu leitað ef þér finnst þú vera að missa vonina eins og mörgum finnst þeir vera að gera á þessum erfiðu tímum? Margir halda því fram að þeir geti leyst vandamálin en óteljandi tillögur geta verið mótsagnakenndar og valdið ruglingi. En hvers vegna ekki að leita til hans sem hannaði okkur á þann hátt að við gætum eignast von? Í Biblíunni segir að hann sé „ekki langt frá neinum okkar“ og að hann sé meira en fús til að hjálpa okkur. – Postulasagan 17:27; 1. Pétursbréf 5:7

Hvað merkir orðið „von“?

Í Biblíunni er merking orðsins „von“ breiðari og dýpri en almennt hjá læknum, vísindamönnum og sálfræðingum. Orð sem eru þýdd „von“ í Biblíunni merkja á frummálinu að bíða með eftirvæntingu og að vænta einhvers góðs. Í aðalatriðum felur von tvennt í sér: Löngun í eitthvað gott og grundvöllinn fyrir því að trúa því að eitthvað gott sé í vændum. Vonin sem talað er um í Biblíunni er ekki bara óskhyggja. Hún hefur traustan grunn sem byggist á staðreyndum og sönnunum.

Að þessu leyti er von lík trú sem verður að vera grundvölluð á sönnunum, ekki trúgirni. (Hebreabréfið 11:1) Biblían gerir samt greinarmun á trú og von. – 1. Korintubréf 13:13.

Tökum dæmi. Þegar þú biður góðan vin um greiða vonastu til að hann hjálpi þér. Von þín er ekki út í bláinn vegna þess að þú hefur trú á vini þínum. Þú þekkir hann vel og hann hefur áður sýnt góðvild og örlæti. Trú þín er samofin von þinni en um leið er munur þar á. Hvernig getum við vonað þannig á Guð?

Grundvöllurinn fyrir von

Guð er uppspretta sannrar vonar. Á biblíutímanum var Jehóva kallaður „von Ísraels“. (Jeremía 14:8) Þegar fólk hans hafði áreiðanlega von var það honum að þakka. Í þeim skilningi var hann von þeirra. Þessi von var ekki bara óskhyggja. Guð gaf þjóðinni traustan grunn fyrir henni. Í samskiptum sínum við þjóðina í gegnum aldirnar stóð hann við þau loforð sem hann gaf. Leiðtogi þjóðarinnar, Jósúa, sagði við hana: „Þið skuluð játa ... að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt.“ – Jósúabók 23:14.

Þúsundum ára síðar er staðan sú sama. Biblían er full af dásamlegum loforðum Guðs ásamt áreiðanlegum heimildum um uppfyllingu þeirra. Spádómleg fyrirheit hans eru svo traustvekjandi að stundum eru þau skrifuð eins og þau hafi þegar fengið uppfyllingu á tímanum sem þau voru gefin.

Þess vegna getum við talað um Biblíuna sem bók vonar. Þegar þú kynnir þér samskipti Guðs við menn hefurðu meiri og meiri ástæðu til að setja von þína á hann. Páll postuli skrifaði: „Allt sem var skrifað áður var skrifað til að við gætum lært af því og haldið voninni vegna þolgæðis okkar og þeirrar huggunar sem Ritningarnar veita.“ – Rómverjabréfið 15:4.

Hvaða von gefur Guð okkur?

Hvenær þörfnumst við mest vonar? Að öllum líkindum er það þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum, eins og til dæmis þegar ástvinur deyr. Fátt vekur meira vonleysi en dauðinn. Hann eltir okkur öll vægðarlaust uppi. Við getum forðast hann upp að vissu marki en við höfum engan möguleika á að snúa dauðanum við. Það er viðeigandi að Biblían kallar dauðann ,síðasta óvininn‘. – 1. Korintubréf 15:26.

Hvernig getum við þá haft von þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum? Í biblíuversinu þar sem dauðinn er kallaður ,síðasti óvinurinn‘ er einnig sagt að hann ,verði gerður að engu‘. Jehóva Guð er sterkari en dauðinn. Hann hefur margsinnis sannað það með því að reisa dána aftur til lífs. Í Biblíunni er greint frá níu tilfellum þar sem Guð notaði mátt sinn til að gefa dánum einstaklingum aftur líf.

Það var mjög sérstakt þegar Jehóva gerði Jesú syni sínum kleift að reisa góðan vin sinn, Lasarus, upp frá dauðum en hann hafði verið dáinn í fjóra daga. Jesús gerði þetta ekki í leynum heldur opinberlega, að fjölda fólks ásjáandi. – Jóhannes 11:38–48, 53; 12:9, 10.

Þú veltir því kannski fyrir þér hvers vegna þetta fólk var reist upp frá dauðum. Varð það ekki gamalt og dó að lokum? Reyndar. En vegna þess að við höfum áreiðanlegar frásögur um upprisu eins og þessa getum við gert meira en að óska þess að ástvinir okkar fái upprisu, við höfum ástæðu til að trúa að þeir muni fá lífið aftur. Við höfum með öðrum orðum raunverulega von.

Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið.“ (Jóhannes 11:25) Jehóva mun gera honum kleift að reisa fólk upp frá dauðum um allan heim. Jesús sagði: „Sú stund kemur að allir sem eru í minningargröfunum heyra rödd [Krists] og rísa upp.“ (Jóhannes 5:28, 29) Allir sem hvíla í minningargröfunum eiga í vændum að fá upprisu í paradís á jörð.

Spámaðurinn Jesaja dró upp hjartnæma mynd af upprisunni: „Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna, lík þeirra rísa upp. Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna. Þar sem dögg þín er dögg ljóssins mun jörðin fæða þá sem dánir eru.“ – Jesaja 26:19.

Er þetta ekki hughreystandi? Rétt eins og barn nýtur verndar í móðurkviði gætu dánir ekki verið á öruggari stað. Þeir sem hvíla í gröfunum eru geymdir í ótakmörkuðu minni almáttugs Guðs. (Lúkas 20:37, 38) Bráðlega verða þeir vaktir aftur til lífs. Og rétt eins og eftirvæntingarfull fjölskylda tekur á móti nýfæddu barni ríkir gleði þegar tekið verður á móti þeim. Það er því von, jafnvel þótt maður standi frammi fyrir dauðanum.

Hvernig getur vonin hjálpað þér?

Páll kennir okkur margt um gildi vonarinnar. Hann talaði um vonina sem mikilvægan hluta af andlegum herklæðum – hjálminn. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Hvað var hann að segja með því? Á biblíutímanum hafði hermaður í orrustu hjálm á höfðinu, gjarnan yfir húfu úr leðri eða flókaefni. Hjálmurinn hlífði höfðinu fyrir flestum höggum sem gátu verið lífshættuleg. Hvað meinti Páll? Á sama hátt og hjálmur verndar höfuðið verndar vonin hugann eða skýra hugsun. Ef þú hefur trausta von í samræmi við fyrirætlun Guðs raskar það ekki hugarró þinni þótt þú mætir erfiðleikum og þú fyllist ekki örvæntingu. Hver slær hendinni á móti þannig hjálmi?

Páll notar aðra áhrifamikla líkingu um vonina sem tengist vilja Guðs. Hann skrifaði: „Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir sálina, bæði traust og örugg.“ (Hebreabréfið 6:19) Páll lifði oftar en einu sinni af skipbrot og vissi hversu mikils virði akkeri er. Þegar sjómenn lentu í stormi léttu þeir akkerum. Ef þau náðu niður á sjávarbotn og höfðu hald átti skipið möguleika á að komast tiltölulega öruggt í gegnum storminn í staðinn fyrir að berast upp að ströndinni og brotna.

Ef loforð Guðs gefa okkur örugga og trausta von getum við, með hana að akkeri, staðið af okkur storma lífsins. Jehóva lofar því að sá tími komi brátt að mannkynið verði ekki lengur þjakað af styrjöldum, glæpum, sorg eða jafnvel dauða. (Sjá rammagrein á bls. 10.) Ef við höldum fast í þá von getur það hjálpað okkur að afstýra ógæfu og verið okkur hvöt til að lifa eftir mælikvarða Guðs en ekki eftir stjórnlausum og siðlausum viðhorfum sem eru svo útbreidd í heiminum.

Vonin sem Jehóva býður okkur snertir líka þig. Hann vill að þú njótir lífsins eins og hann ætlaðist til. Hann vill að „að alls konar fólk bjargist“. Hvernig? Fyrst þarf hver og einn að fá „nákvæma þekkingu á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Útgefendur þessa tímarits hvetja þig til að afla þér þeirrar lífgefandi þekkingar sem er að finna í orði Guðs. Vonin sem Guð mun gefa þér er langtum dýrmætari en nokkur von sem heimurinn býður upp á.

Með slíka von þarftu aldrei að fyllast örvæntingu vegna þess að Guð getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að ná hvaða markmiði sem þú hefur og er í samræmi við vilja hans. (2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:13) Hefurðu ekki þörf fyrir slíka von? Hertu upp hugann ef þú þarft á von að halda og hefur verið að leita að henni. Vonin er innan seilingar. Þú getur fundið hana!

[Rammi]

Ástæður til að hafa von

Þessi vers í Biblíunni geta hjálpað þér að byggja upp von:

Guð lofar hamingjuríkri framtíð.

Í Biblíunni er sagt að jörðin verði öll að paradís þar sem menn munu búa hamingjusamir og sameinaðir. – Sálmur 37:11, 29; Jesaja 25:8; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Guð getur ekki logið.

Hann hefur óbeit á hvers kyns lygi. Jehóva er óendanlega heilagur eða hreinn þannig að það er ómögulegt að hann ljúgi. – Orðskviðirnir 6:16–19; Jesaja 6:2, 3; Títusarbréfið 1:2; Hebreabréfið 6:18.

Guð býr yfir óendanlega miklum krafti.

Jehóva er einn almáttugur. Ekkert í öllum alheiminum getur komið í veg fyrir að hann uppfylli loforð sín. – 2. Mósebók 15:11; Jesaja 40:25, 26.

Guð vill að þú lifir að eilífu.

Jóhannes 3:16; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

Guð kýs að sjá það góða í okkur.

Hann kýs að einblína á góða eiginleika okkar og viðleitni en ekki galla okkar og mistök. (Sálmur 103:12–14; 130:3; Hebreabréfið 6:10) Hann vonar að við gerum það sem er rétt og gleðst þegar við gerum það. – Orðskviðirnir 27:11.

Guð lofar að hjálpa þér að ná markmiðum sem eru í samræmi við vilja hans.

Þjónar hans þurfa aldrei að hafa þá tilfinningu að þeir séu hjálparvana. Guð gefur örlátlega af heilögum anda sínum, sterkasta afli sem til er, til að hjálpa okkur. – Filippíbréfið 4:13.

Það eru aldrei mistök að vona á Guð.

Hann er algerlega áreiðanlegur og traustur og bregst þér aldrei. – Sálmur 25:3.

[Mynd]

Á sama hátt og hjálmur verndar höfuðið verndar vonin hugann.

[Mynd]

Á sama hátt og akkeri getur von byggð á traustum grunni veitt stöðugleika.

[Rétthafi]

Courtesy René Seindal/Su concessione del Museo Archeologico Regionale A. Salinas di Palermo