Hoppa beint í efnið

Klæðnaður og útlit var það sem hindraði mig

Klæðnaður og útlit var það sem hindraði mig

Klæðnaður og útlit var það sem hindraði mig

EILEEN BRUMBAUGH SEGIR FRÁ

ÉG ÓLST upp í söfnuði baptista sem líkist söfnuði amish-fólksins og mennoníta. Hann á rætur að rekja til píetisma, trúarhreyfingar sem hófst í Þýskalandi árið 1708. Alfræðibókin Encyclopedia of Religion segir að þessi trúarhreyfing hafi verið stofnuð vegna þess að sumir voru sannfærðir um að allir þyrftu að heyra fagnaðarboðskapinn um Krist. Það varð til þess að trúin var boðuð með góðum árangri í mismunandi löndum.

Árið 1719 kom lítill hópur undir forystu Alexanders Macks til Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Síðan hafa fleiri hópar verið stofnaðir og klofnað frá öðrum. Hver hópur aðhyllist eigin túlkun á kenningum Alexanders Macks. Í litla söfnuðinum okkar voru 50 manns. Lögð var áhersla á að lesa Biblíuna og halda sig fast við ákvarðanir þeirra sem fóru með forystuna.

Fjölskyldan mín hafði tilheyrt þessum söfnuði og lifað eftir kenningum hans í að minnsta kosti þrjár kynslóðir. Ég gekk í söfnuðinn og var skírð þegar ég var 13 ára. Mér var kennt að það væri rangt að eiga eða nota bíla, dráttarvélar, síma og jafnvel útvarp eða nokkurt tæki knúið rafmagni. Konur klæddust látlausum fötum, klipptu ekki á sér hárið og voru aldrei berhöfðaðar. Karlmenn voru með skegg. Að tilheyra ekki heiminum þýddi í okkar huga að klæðast ekki nútímafötum og nota ekki andlitsfarða eða skartgripi. Slíkt sýndi syndugt stolt að okkar mati.

Okkur var kennt að bera djúpa virðingu fyrir Biblíunni sem við álitum andlega fæðu. Á hverjum morgni fyrir morgunmat settumst við og hlustuðum á pabba lesa kafla í Biblíunni og útskýra það sem hann las. Síðan krupum við öll á meðan pabbi fór með bæn. Eftir það fór mamma með faðirvorið. Ég hlakkaði alltaf til morguntilbeiðslunnar vegna þess að þá safnaðist öll fjölskyldan saman og beindi athyglinni að andlegum málum.

Við bjuggum á sveitabæ nálægt Delphi í Indiana þar sem við ræktuðum ýmis konar grænmeti. Við fórum með það í bæinn á hestvagni og seldum það á götumarkaði eða hús úr húsi. Við litum á erfiðisvinnu sem þátt í þjónustu okkar við Guð. Við einbeittum okkur því að henni alla daga nema á sunnudögum en þá áttum við ekki að vinna neina erfiðisvinnu. En stundum var fjölskyldan svo upptekin af vinnunni á bænum að það var erfitt að einbeita sér að andlegum málum.

Hjónaband og fjölskylda

Árið 1963 þegar ég var 17 ára giftist ég James sem var líka í söfnuðinum. Langafi hans og langamma höfðu líka verið í honum. Við vildum bæði umfram allt þjóna Guði og trúðum að okkar trú væri sú eina rétta.

Árið 1975 voru börnin orðin sex og sjöunda og síðasta barnið okkar kom í heiminn 1983. Rebecca var næstelst og eina stelpan. Við unnum mikið, eyddum litlu og lifðum einföldu lífi. Við reyndum að innprenta börnunum okkar sömu meginreglur Biblíunnar og við höfðum lært af foreldrum okkar og öðrum í söfnuðinum.

Mikil áhersla var lögð á útlitið í söfnuðinum. Þar sem enginn getur lesið hjörtu fannst okkur klæðaburðurinn sýna hvað býr í hjartanu. Það var álitið bera vitni um stolt að vera með áberandi hárgreiðslu. Ef mynstur á kjól var of stórt var það líka álitið endurspegla stolt. Stundum drógu þessi mál athyglina frá því sem segir í Biblíunni.

Fangelsisvist

Á síðari hluta sjöunda áratug síðustu aldar var Jesse mágur minn sem var alinn upp í söfnuðinum sendur í fangelsi vegna þess að hann neitaði að gegna herþjónustu. Þar hitti hann votta Jehóva sem álíta líka að það stríði á móti meginreglum Biblíunnar að taka þátt í hernaði. (Jesaja 2:4; Matteus 26:52) Jesse ræddi mikið við vottana um Biblíuna og fylgdist með þeim. Eftir að hafa rannsakað Biblíuna vandlega skírðist hann sem vottur Jehóva, okkur til skelfingar.

Jesse talaði við manninn minn um það sem hann var búinn að læra. Hann útvegaði James líka reglulega Varðturninn og Vaknið! Áhugi James á Biblíunni jókst þegar hann las þessi tímarit. Hann hafði alltaf haft sterka löngun til að þjóna Guði en fannst hann oft fjarlægur honum. Hann var því mjög áhugasamur um hvað sem gæti hjálpað honum að nálægja sig Guði.

Öldungarnir í söfnuðinum hvöttu okkur til að lesa tímarit amish-fólksins, mennoníta og annara skyldra safnaða enda þótt við álitum þessa söfnuði tilheyra heiminum. Faðir minn hafði mikla fordóma gagnvart vottunum. Að hans mati áttum við alls ekki að lesa Varðturninn og Vaknið! Mér brá því þegar ég sá að James var að lesa þessi tímarit. Ég var hrædd um að hann færi að fylgja fölskum kenningum.

James hafði lengi efast um sumar kenningar safnaðarins sem honum fannst vera í mótsögn við það sem segir í Biblíunni – sérstaklega að það sé synd að vinna erfiðisvinnu á sunnudögum. Í söfnuðinum var til dæmis kennt að það megi brynna skepnum á sunnudegi en ekki reita illgresi. Öldungarnir gátu ekki rökstutt þetta út frá Biblíunni. Ég fór smám saman að efast um slíkar kenningar líka.

Okkur fannst erfitt að segja skilið við söfnuðinn vegna þess að við höfðum lengi trúað því að okkar trú væri sú eina rétta og áttuðum okkur því á hvað það hefði í för með sér að yfirgefa hann. En samviska okkar leyfði okkur ekki lengur að vera í söfnuði sem okkur fannst ekki fylgja Biblíunni algerlega. Við skrifuðum því bréf árið 1983 og útskýrðum ástæðuna fyrir því að við hættum og báðum um að bréfið yrði lesið í söfnuðinum. Okkur var vísað úr honum.

Leit að sannri trú

Eftir þetta byrjaði leit okkar að hinni sönnu trú. Við leituðum að samræmi, trú þar sem fólk bæri þann ávöxt sem það kenndi öðrum að rækta með sér. Fyrst útilokuðum við öll trúarbrögð sem taka þátt í hernaði. Við löðuðumst að trú sem hefði einfaldan lífstíl því að okkur fannst einfalt líf og klæðaburður merki um að söfnuður væri ekki hluti af heiminum. Á árunum 1983 til 1985 ferðuðumst við um landið og skoðuðum hvern söfnuðinn á fætur öðrum – mennoníta, kvekara og aðra söfnuði sem iðkuðu einfaldan lífstíl.

Á þeim tíma heimsóttu vottar Jehóva okkur á sveitabæinn okkar nálægt Camden í Indiana. Við hlustuðum og báðum þá að nota bara King James-biblíuna. Ég virti afstöðu vottana til hernaðar. En ég var ekki með opinn huga því að þeir sáu ekki þörf á því að aðgreina sig frá heiminum með því að klæðast látlausum fötum og því mér fannst þeir ekki geta verið með sanna trú. Mér fannst það endurspegla stolt að klæðast öðruvísi en við gerðum. Ég áleit að eignir gerðu fólk stolt.

James fór að mæta í ríkissal Votta Jehóva og tók suma af drengjunum okkar með sér. Þetta kom mér í uppnám. Maðurinn minn hvatti mig til að koma með en ég hikaði. Þá sagði hann dag einn: „Komdu og sjáðu hvernig þeir koma fram hver við annan þótt þú samþykkir ekki allt sem þeir kenna.“ Hann hreifst af framkomu þeirra.

Að lokum lét ég tilleiðast en var mjög varkár. Ég gekk inn í ríkissalinn í mínum látlausa kjól og með minn látlausa hatt. Sumir drengjanna okkar voru berfættir og fötin þeirra voru líka látlaus. En vottarnir komu samt til okkar og voru vingjarnlegir. Ég hugsaði með mér að við værum öðruvísi en að þeir tækju samt vel á móti okkur.

Kærleikur þeirra hafði mikil áhrif á mig en ég var ákveðin í að fylgjast bara með. Ég stóð ekki upp og tók ekki þátt í söng. Eftir samkomuna spurði ég margra spurninga varðandi það sem mér fannst ekki rétt hjá þeim og þýðingu ákveðinna biblíuversa. Allir sem ég spurði sýndu mér raunverulegan áhuga þótt ég sýndi ekki mikla háttvísi. Ég var líka hrifin af því að geta spurt fleiri en einn sömu spurningar og fengið svör sem voru í samræmi. Stundum skrifuðu þeir svarið en það reyndist mjög hjálplegt því að þannig gat ég skoðað þetta betur síðar.

Sumarið 1985 fór fjölskyldan okkar á mót Votta Jehóva í Memphis í Tennessee – bara til að fylgjast með. James var enn með skegg og við í okkar látlausu fötum. Það var varla nokkur stund í hléunum sem einhver heilsaði ekki upp á okkur. Okkur fannst mikið til um kærleika þeirra, athygli og hlýju. Við vorum líka hrifin af einingunni. Hvar sem við fórum á samkomu kenndu þeir það sama.

James þáði aðstoð við að rannsaka Biblíuna vegna þess að honum var sýndur persónulegur áhugi. Hann grandskoðaði allt til að vera viss um það sem hann var að læra. (Postulasagan 17:11; 1. Þessaloníkubréf 5:21) Með tímanum fannst honum hann hafa fundið sannleikann. En ég átti í mikilli innri baráttu. Ég vildi gera það sem er rétt en ég vildi ekki „verða nútímaleg“ og álitin „veraldleg“. Þegar ég samþykkti fyrst að vera með í biblíunáminu var ég bæði með King James-biblíuna og Nýheimsþýðinguna. Ég skoðaði öll vers í báðum þýðingum til að vera viss um að það væri ekki verið að villa um fyrir mér.

Ég sannfærist

Þegar við skoðuðum Biblíuna með hjálp vottanna lærðum við að faðir okkar á himnum er einn Guð, ekki þrír í einum og að við höfum ekki ódauðlega sál heldur erum sálir. (1. Mósebók 2:7; 5. Mósebók 6:4; Esekíel 18:4; 1. Korintubréf 8:5, 6) Við lærðum líka að helja er sameiginleg gröf mannkynsins en ekki staður elds og kvala. (Jobsbók 14:13; Sálmur 16:10; Prédikarinn 9:5, 10; Postulasagan 2:31) Að læra sannleikann um helju markaði þáttaskil fyrir okkur því að menn voru ekki á einu máli um það í söfnuðinum sem við höfðum verið í áður.

En ég velti því samt fyrir mér hvernig vottarnir gætu haft sanna trú þegar þeir tilheyrðu enn heiminum í mínum huga. Þeir lifðu ekki þessu „einfalda“ lífi sem mér fannst svo nauðsynlegt. En ég áttaði mig samt á því að þeir hlýddu boði Jesú um að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið öllu fólki. Ég var alveg ringluð. – Matteus 24:14; 28:19, 20.

Á þessum erfiða tíma hjálpaði kærleikur vottanna mér að halda áfram að skoða málið. Allur söfnuðurinn sýndi fjölskyldunni okkar áhuga. Bræður og systur komu við og notuðu stundum þá afsökun að kaupa af okkur mjólk og egg. Smám saman fórum við að líta á þau sem gott fólk. Þótt ákveðnir vottar væru að aðstoða okkur við biblíunám kom það ekki í veg fyrir að aðrir vottar kæmu í heimsókn. Hvenær sem einhver í söfnuðinum var í nágrenninu kom hann við. Við þurftum mjög mikið á því að halda að kynnast vottunum og kunnum vel að meta kærleika þeirra og einlægan áhuga á okkur.

Þessi áhugi takmarkaðist ekki við vottana í söfnuðinum sem var næstur okkur. Þar sem ég átti í baráttu við hugmyndir um klæðnað og útlit kom Kay Briggs, vottur úr söfnuði í nágrenninu, í heimsókn en hún kaus einfaldan klæðnað og málaði sig ekki. Ég var afslöppuð í návist hennar og fannst auðvelt að tala við hana. Síðan kom Lewis Flora líka í heimsókn en hann var líka alinn upp í söfnuði með „einfaldan“ lífstíl. Hann sá á andlitinu á mér hvað ég átti í mikilli baráttu og sendi mér tíu síðna bréf til að hjálpa mér að ná áttum. Ég táraðist þegar ég fann góðvildina sem hann sýndi og las oft bréfið frá honum.

Ég bað bróður O‘Dell sem var farandhirðir að útskýra Jesaja 3:18–23 og 1. Pétursbréf 3:3, 4 fyrir mér. „Sýna þessi biblíuvers ekki að það er nauðsynlegt að klæðast látlausum fötum til að þóknast Guði?“ spurði ég hann. Hann svaraði: „Er rangt að hafa húfu? Er rangt að flétta hár? Í söfnuðinum sem við vorum í fléttuðum við hár lítilla stelpna og konurnar voru með hatta. Ég skildi að þarna var ósamræmi og það hafði mikil áhrif á mig hvað farandhirðirinn var þolinmóður og góðviljaður.

Smám saman sannfærðist ég en það var eitt sem truflaði mig mikið – að konur létu klippa á sér hárið. Öldungar í söfnuðinum útskýrðu fyrir mér að hár kvenna næði mismunandi sídd. Var þá hár sumra betra en annarra? Þeir sýndu mér líka hvaða hlutverki samviskan gegnir varðandi klæðnað og útlit og gáfu mér efni um það til að lesa.

Við förum eftir því sem við lærum

Við leituðum að góðum ávexti og fundum hann. Jesús sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Við vorum sannfærð um að vottar Jehóva séu fólk sem sýna sannan kærleika. Engu að síður var þetta ruglingslegur tími fyrir tvö elstu börnin okkar, Nathan og Rebeccu, þar sem þau höfðu tekið trú í söfnuðinum sem við vorum í áður og látið skírast. Að lokum hafði sannleikur Biblíunnar sem við kenndum þeim ásamt kærleika vottana áhrif á þau.

Rebeccu hafði til dæmis alltaf langað að eiga náið samband við Guð. Henni fannst auðveldara að biðja til hans þegar hún komst að því að hann ákveður ekki fyrir fram hvað fólk gerir eða hvernig framtíð þess verður. Það styrkti líka samband hennar við Guð að skilja að hann er raunveruleg persóna sem hún gæti líkt eftir en ekki hluti af dularfullri þrenningu. (Efesusbréfið 5:1) Hún var líka ánægð að þurfa ekki að nota gamaldags biblíumál þegar hún ávarpaði hann. Þegar hún kynntist kröfum Guðs varðandi bænina og stórkostlegum tilgangi hans með mannkynið um að lifa að eilífu í paradís á jörð varð hún nánari honum en nokkru sinni áður. – Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Við njótum öll þjónustunnar

Við James og fimm elstu börnin okkar, Nathan, Rebecca, George, Daniel og John vorum skírð sem vottar Jehóva sumarið 1987. Harley lét skírast 1989 og Simon 1994. Öll fjölskyldan helgar sig því starfi sem Jesús Kristur bauð fylgjendum sínum að gera, boða fagnaðarboðskapinn um Guðsríki.

Fimm eldri synir okkar, Nathan, George, Daniel, John og Harley og Rebecca dóttir okkar, hafa öll starfað við deildarskrifstofu Votta Jehóva í Bandaríkjunum. George hefur starfað þar í 14 ár og er þar enn. Simon sem útskrifaðist úr skóla 2001 er nýlega farinn að vinna þar líka. Allir synir okkar eru annaðhvort öldungar eða safnaðarþjónar í söfnuði Votta Jehóva. Eiginmaður minn er öldungur í Thayer-söfnuðinum í Missouri og ég hef nóg að gera í boðuninni.

Við eigum þrjú barnabörn, Jessicu, Latishu og Caleb og njótum þess að fylgjast með foreldrum þeirra glæða kærleika til Jehóva í móttækilegum hjörtum þeirra. Við gleðjumst yfir því sem fjölskylda að Jehóva skuli hafa dregið okkur til sín og hjálpað okkur að kynnast nafni hans og þjónum hans vegna kærleikans sem þeir sýna.

Við finnum til með þeim sem hafa sterka löngun til að þóknast Guði en hefur verið kennt að þjálfa samviskuna eftir umhverfinu í stað Biblíunnar. Við óskum þess að þeir finni þá gleði sem við njótum þegar við förum hús úr húsi, ekki með vörur, heldur boðskapinn um Guðsríki og allt það dásamlega sem það hefur í för með sér. Ég er full þakklætis fyrir alla þá þolinmæði og þann kærleika sem fólk Jehóva hefur sýnt mér.

[Myndir]

Þegar ég var um það bil sjö ára og seinna sem fullorðin.

[Mynd]

James, George, Harley og Simon í látlausum fötum.

[Mynd]

Þessi ljósmynd af mér að fara með vörur á markaðinn birtist í dagblaði.

[Rétthafi]

Journal and Courier, Lafayetta, Indiana.

[Mynd]

Við fjölskyldan.