Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Guðs í fullu starfi eru í fremstu víglínu

Þjónar Guðs í fullu starfi eru í fremstu víglínu

Þjónar Guðs í fullu starfi eru í fremstu víglínu

Vera má að sá vottur Jehóva, sem fyrstur knúði dyra hjá þér, hafi verið trúboði eða brautryðjandi, þjónn orðsins í fullu starfi. Þar eð vottar Jehóva greiða ekki laun fyrir slíka þjónustu hefur þú hugsanlega velt fyrir þér hvernig þetta fólk geti varið öllum sínum tíma til hennar.

Allir vottar Jehóva, sem eru vígðir og skírðir, eru þjónar orðsins, en meirihlutinn hefur skyldur gagnvart fjölskyldu eða af öðru tagi sem gera að verkum að þeir geta ekki varið nema fáeinum klukkustundum á viku til þjónustu sinnar. Þúsundir votta Jehóva í öllum heimshornum hafa hins vegar einsett sér að gera minni lífsgæðakröfur en þorri manna, til að þeim nægi að vinna hluta úr degi til að sjá sér farborða. Með þeim hætti geta þeir varið 1000 klukkustundum eða meiru á ári til þjónustunnar.

Sá sem er þjónn orðsins í fullu starfi, brautryðjandi, hefur að vísu ekki eins mikið handa á milli til að nota fyrir sjálfan sig, en í hans huga er þetta leið til að leita fyrst ríkis Guðs. Og brautryðjendur hljóta margvíslega blessun. Það eitt að geta talað við aðra um orð Guðs í 90 stundir eða meira á mánuði er mjög ánægjuleg reynsla. Sá sem er í fullu starfi í þjónustunni eykur leikni sína og kunnáttu þar að lútandi og hefur auk þess tíma til að fylgja vel eftir þeim áhuga sem hann finnur. Árangurinn er mjög svo hvetjandi. Þeir hafa það sem þeir þurfa af efnislegu tagi og gera sig fyllilega ánægða með það sem þeir hafa. — Matteus 6:33.

Í febrúar árið 1943 stofnaði Varðturnsfélagið biblíuskóla sinn Gíleað. Markmið skólans var að þjálfa reynda brautryðjendur fyrir trúboðsstarf erlendis. Námið tekur fimm mánuði og er fólgið í ítarlegri yfirferð yfir Biblíuna og sögu hennar, fræðslu um skipulag Jehóva og skyld efni til undirbúnings fyrir þjónustu á erlendum akri.

Félagið greiðir ferðakostnað trúboðanna til trúboðssvæðisins, og sér þeim fyrir heilnæmum mat og hæfilegu húsnæði á trúboðsheimili. Auk þess lætur það hverjum trúboða í té lítilsháttar fjárstyrk til persónulegra nota. Trúboðarnir skiptast á við rekstur heimilisins, svo sem innkaup, matargerð og ræstingu. Með þetta að bakhjarli geta trúboðarnir varið að minnsta kosti 140 stundum á mánuði í að prédika hús úr húsi og nema Biblíuna með þeim sem áhuga sýna.

Margir trúboðanna eru sendir til landa í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá heimili sínu og ættingjum. Þeir þurfa að aðlaga sig ólíkum lífsháttum og menningu, nýjum matarvenjum, ólíku loftslagi og læra nýtt tungumál. Þeir gera það vegna þess að þeim er annt um fólk og bera í brjósti sterka löngun til að hjálpa því að kynnast ríki Guðs.

Á árabilinu 1943 til 1985 hefur biblíuskólinn Gíleað haldið 80 námskeið og sent út yfir 6000 trúboða. Undir yfirumsjón Félagsins hafa þeir verið í fremstu víglínu aukinnar biblíufræðslu út um Afríku alla, Mið- og Suður-Ameríku, Austurlönd og Suður-Kyrrahafssvæðið, og einnig áorkað miklu í Evrópulöndum.

Hvort sem vottar Jehóva sinna þjónustunni í fullu starfi sem brautryðjendur eða trúboðar, eða aðeins hluta af tíma sínum, gera þeir það án fjárhagslegs hagnaðar. Þeir eyða af sínum eigin tíma og fé, svo og sjálfum sér, til að hjálpa öðrum að öðlast þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs. — Jóhannes 17:3.

● Hvernig fara sumir vottar Jehóva að því að verja öllum sínum tíma til þjónustunnar og hvers vegna gera þeir það?

● Hvernig eru þjónar orðsins þjálfaðir til trúboðsstarfs?

● Hvernig er trúboðum séð farborða í starfssvæði sínu erlendis?

[Myndir á blaðsíðu 22]

Til vinstri: Skólastofa Gíleaðskólans í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum.

Til hægri: Trúboði kennir orð Guðs í Papúa Nýju-Guineu.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Brautryðjendur og trúboðar prédika orð Guðs í hinum ýmsu löndum.

Brasilía

Dóminíkanska lýðveldið

Spánn

Sierra Leone í Afríku