Biblíurit framleidd til að lofa Guð
Biblíurit framleidd til að lofa Guð
Vottar Jehóva eru kunnir fyrir að nota prentað mál við að prédika ríki Guðs. Frá 1920 hefur Biblíufélagið Varðturninn notað sjálfboðaliða úr röðum vottanna til að framleiða tímarit og bækur til dreifingar. Með þeim hætti hefur verið tryggð stöðug framleiðsla rita með lægsta hugsanlega tilkostnaði.
Í um það bil sex áratugi hefur Félagið verið að þróa og auka framleiðslu sína á biblíuritum, fyrst í Brooklyn og síðan í öðrum löndum. Öll vinna hefur verið í höndum vaxandi hóps sjálfboðaliða.
Síðla á áttunda áratugnum voru hinar gamalgrónu aðferðir við setningu og prentun látnar víkja fyrir tölvustýrðri ljóssetningu og offsetprentun. Sá vandi blasti við að fáanlegur tölvubúnaður réði aðeins við takmarkaðan tungumálafjölda. Varðturnsfélagið gaf hins vegar út rit á um það bil 160 tungumálum þá og þörf var fyrir fleiri.
Því var leitað til sjálfboðaliða til að vinna að þróun og gerð rafeindabúnaðar fyrir ljóssetningu á öllum þessum tungumálum. Árangurinn varð mjög ánægjulegur. Félaginu tókst að yfirstíga þau tæknilegu vandamál, sem við var að glíma, og þróa tölvubúnað, nefndur MEPS, fyrir innslátt texta, umbrot og stjórn ljóssetningarbúnaðar. Þessi tækjabúnaður ræður við nálega 200 tungumál og hægt er að bæta fleiri við.
Nú er MEPS tölvubúnaður, sem vottar Jehóva hafa framleitt, í notkun í 25 löndum og í bígerð er að koma honum upp enn víðar. Sjálfboðaliðar, búsettir í þessum löndum, hafa hlotið þjálfun til að nota þennan búnað og halda honum við. Félagið prentar núna tímarit á liðlega 100 tungumálum í 36 löndum, og í 5 þeirra eru einnig prentaðar bækur og biblíur.
Til að inna þetta starf af hendi þarf fólk — semjendur, þýðendur, prófarkalesara, prentara, bókbindara og
fjölmargt fleira starfsfólk. Sumir annast bréfaskipti við söfnuðina, sumir vinna við matvælaframleiðslu, matargerð, hreingerningar, fataþvott og svo mætti lengi telja. Öll þessi störf eru unnin af sjálfboðaliðum sem hafa boðið sig fram í hinum ýmsu löndum. Árið 1985 störfuðu alls 8438 sjálfboðaliðar á skrifstofum, prentsmiðjum, heimilum og búgörðum út um heiminn.Hvaða fólk er þetta? Þetta eru karlar og konur, einhleypir og giftir, ungir og aldnir, en allir vígðir vottar Jehóva. Sumir hafa verið í slíku starfi í fjóra, fimm eða jafnvel sex áratugi. Þeir skila að meðaltali minnst 44 vinnustundum á viku, og meiru ef þörf krefur. Kvöld og helgar nota þeir til að prédika fagnaðarerindið hús úr húsi og sinna öðru safnaðarstarfi.
Hvar sem er í heiminum er þessum verkamönnum séð fyrir látlausu húsnæði og fæði á svonefndum Betelheimilum sem Félagið starfrækir. Auk þess er þeim veittur lítilsháttar fjárstyrkur til að standa undir ferðakostnaði í þjónustunni, og smáupphæð til persónulegra þarfa.
Frá árinu 1920 hafa þessir sjálfboðaliðar framleitt yfir níu milljarða biblía, bóka, tímarita og flugrita á um það bil 200 tungumálum sem dreift hefur verið um allan heiminn. Þeir leggja sitt af mörkum til að hægt sé að boða sérhverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð eilífan, gleðiríkan fagnaðarboðskap. — Opinberunarbókin 14:6, 7.
● Hvaða útgáfustarfsemi fer fram á vegum Varðturnsfélagsins og hvers vegna?
● Hverjir vinna öll þau störf, sem til þarf, og hvernig búa þeir?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Sjálfboðaliðar við ýmis störf tengd útgáfu biblíurita í prentsmiðju, á heimili, skrifstofu og búgarði Félagsins í Brooklyn og í Wallkill í New York í Bandaríkjunum.
[Myndir á blaðsíðu 25]
Sjálfboðaliðar við ýmis störf beint eða óbeint tengd gerð biblía og biblíurita.
Spánn
Þýskaland
Finnland
Kanada
Danmörk
Svíþjóð
Suður-Afríka
Brasilía
Holland
Ástralía