Jehóva safnar saman fólki sínu og býr það til starfs
Jehóva safnar saman fólki sínu og býr það til starfs
Í aldanna rás hafði fráhvarfið frá trúnni teygt sig út til fjarlægustu heimshorna. Hinar fjölmörgu kirkjudeildir héldu eftir einhverjum af kenningum Biblíunnar en fylgdu í aðalatriðum erfðavenjum manna og fjölmörgum siðum af heiðnum uppruna. Eftirvænting eftir komu Krists hvarf yfirleitt í skuggann af öðru. — Samanber Matteus 13:24-30, 37-43.
Jesús hafði þó sagt að fylgjendur hans skyldu vera vakandi fyrir endurkomu hans! Einn hópur manna, sem gerði það, hafði aðsetur í Allegheny í Pennsylvania í Bandaríkjunum. Snemma á áttunda áratug nítjándu aldar hófu Charles Taze Russell og nokkrir vina hans rækilega athugun, óháð öllum trúfélögum, á því hvað Biblían segði um endurkomu Krists. Þeir fóru líka að leita sannleika Biblíunnar um margar aðrar undirstöðukenningar. Þetta var upphafið að nútímastarfi votta Jehóva. — Matteus 24:42.
Þessi hópur komst að þeirri niðurstöðu að þrenningarkenningin ætti sér enga stoð í Biblíunni, heldur að Jehóva sé hinn alvaldi Guð og skapari; Jesús Kristur fyrsta sköpunarverk hans og eingetinn sonur, og að heilagur andi sé ekki persóna heldur ósýnilegur starfskraftur Guðs. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að sálin sé ekki ódauðleg heldur dauðleg, að von hinna látnu byggist á upprisu og að refsing iðrunarlausra syndara sé ekki eilífar kvalir heldur tortíming.
Þeir gerðu sér ljóst að sú væri ein af undirstöðukenningum Biblíunnar að Jesús hafi gefið líf sitt til lausnargjalds fyrir mannkynið. Fyrst yrðu útvaldir 144.000 karlar og konur, yfir tímabil er næði allt frá fyrstu öldinni fram til okkar daga, og leyst frá jörðinni til að verða samerfingjar með Kristi í ríkinu á himnum. Síðan myndu ótaldir milljarðar manna, meirihlutinn með upprisu frá dauðum, öðlast mannlegan fullkomleika vegna lausnargjalds Jesú og eiga í vændum eilíft líf á jörðinni undir stjórn þess ríkis. Russell og félagar hans gerðu sér líka grein fyrir að nærvera Krists yrði ósýnileg, í anda. Heiðingjatímarnir, það tímabil þegar drottinvald Jehóva birtist ekki fyrir milligöngu neinnar stjórnar á jörðinni, myndu taka enda árið 1914. Þá yrði Guðsríki stofnsett á himnum. Þessar kenningar eru þekktar sem kenningar votta Jehóva nú á dögum.
Russell og félagar hans kunngerðu þessi sannindi mjög víða í ræðu og riti. Í júlí 1879 hóf Russell útgáfu tímaritsins Varð Turn Zíonar (nú nefnt Varðturninn). Hann fastákvað að prédikunarstarf biblíunemendanna skyldi eingöngu fjármagnað með frjálsum framlögum og að engin samskot skyldu fara fram. Boðskapnum skyldi dreift með ólaunuðu sjálfboðastarfi þeirra sem trúðu. Sjálfur lagði Russell sitt af mörkum með fé sem hann hafði aflað sér í viðskiptum fram að þeim tíma.
Biblíunemendurnir komu saman í flokkum eins og söfnuðir þeirra voru þá nefndir. Þeir komu saman allt að þrisvar í viku til að heyra erindi, nema Ritninguna og hlýða á vitnisburð. Með reglulegu millibili kusu þeir sér ábyrga karlmenn fyrir öldunga til að hafa umsjón með andlegu starfi hvers flokks fyrir sig.
Árið 1884 var Zion’s Watch Tower Tract Society lögskráð í Pennsylvania sem félag er ekki skyldi rekið í hagnaðarskyni. Forseti þess skyldi kjörinn árlega. Þar með var til komið lögskráð verkfæri, er ekki var háð neinum einstaklingi, til að vinna að biblíufræðslustarfi. Charles T. Russell var kjörinn forseti og litið á skrifstofu hans sem aðalstöðvar.
Mikil vinna var lögð í að láta starfið teygja sig til annarra landa. Það náði til Kanada og Englands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1891 fór Russell í ferðalag um Evrópu og Miðausturlönd til að kanna hvað gera mætti til að vinna að útbreiðslu sannleikans þar. Í byrjun þessarar aldar voru opnuð útibú Félagsins á Bretlandseyjum, í Þýskalandi og í Ástralíu.
Árið 1909 voru aðalstöðvar Varðturnsfélagsins (Watch Tower Society) fluttar til Brooklyn í New York, í því skyni að færa enn frekar út kvíarnar í prédikun fagnaðarerindisins á alþjóðavettvangi. Nauðsynlegt reyndist að stofna annað félag samkvæmt lögum New Yorkríkis, nú þekkt undir heitinu Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. Árið 1914 var Alþjóðasamband biblíunemenda (International Bible Students Association) stofnað í Lundúnum á Englandi til að efla starf biblíunemendanna út um breska samveldið. Út um allan heiminn gegna nú um 70 lögskráð félög og samtök í hinum ýmsu löndum sama hlutverki og Varðturnsfélagið. Öll starfa þau sem góðgerðarfélög, rekin fyrir frjáls framlög og starf sjálfboðaliða.
Charles Taze Russell lést árið 1916 og Joseph Franklin Rutherford tók við af honum sem forseti Varðturnsfélagsins. Á síðustu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar sættu biblíunemendurnir hatrömmum ofsóknum sem náðu hámarki þegar átta bræður, sem gegndu ábyrgðarstörfum í aðalstöðvum Félagsins í Bandaríkjunum, voru fangelsaðir á fölskum forsendum. Hætta virtist á að starf biblíunemendanna leggðist niður. En árið 1919 var þessum bræðrum sleppt úr haldi, þeir fengu uppreisn æru og hófst nú nýr kafli í sögu votta Jehóva með auknu og víðtækara prédikunarstarfi.
Í gegnum aðalstöðvar Félagsins hélt hinn sameinaði hópur smurðra, kristinna biblíunemenda áfram að miðla andlegri fæðu á réttum tíma til allra einstaklinga sem tengdir voru skipulaginu. Með sama hætti og söfnuður smurðra kristinna manna á fyrstu öld myndaði þann ‚trúa og hyggna þjón,‘ sem Jesús hafði getið um, myndar hinn smurði hópur vígðra biblíunemenda, sem starfar í þágu Guðsríkis, ‚trúan og hygginn þjón‘ okkar tíma. Er Jesús kom til að kanna söfnuðinn fann hann þennan hóp önnum kafinn við að sjá hjúunum fyrir fæðu og setti hann þá yfir allar eigur sínar. — Matteus24:45-47; Lúkas 12:42.
Skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina gerðu þjónar Guðs sér að fullu ljóst að ríki Guðs í höndum Krists Jesú hefði verið stofnsett á himnum árið 1914. Orð Jesú gátu því fengið fullnaðaruppfyllingu: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn Matteus 24:14.
koma.“ Joseph F. Rutherford tók frumkvæðið í því að koma þessum boðskap út til enn fleira fólks en áður. —Félagið ákvað því að hefja starfrækslu eigin prentsmiðju. Starfslið yrði skipað sjálfboðaliðum úr röðum hinna vígðu. Með þeim hætti yrði tryggð stöðug framleiðsla biblíurita með sem minnstum kostnaði. Allir biblíunemendur voru hvattir til að taka reglulegan þátt í að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Víða um heim var útvarpað biblíuræðum.
Fyrir 1918 höfðu biblíunemendurnir skilið að tilgangur þeirra með prédikuninni væri að safna saman þeim sem eftir væru af hinum útvöldu, er ríkja ættu með Kristi Jesú á himnum, og að vara heiminn við yfirvofandi dómi Guðs. Því var lítill gaumur gefinn að safna saman þeim sem lifa ættu af endalok hins illa heimskerfis og byggja jörðina. En frá og með 1918 var ræðan „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja“ flutt mjög víða.
Árið 1923 leiddi athugun á dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana, í Matteusi 25:31-46, í ljós að fyrir Harmagedón myndi fólk sem hneigðist til réttlætis en ætti ekki í vændum að ríkja á himnum, einnig hljóta velvild Guðs og lifa af Harmagedón. Árið 1935 leiddu ítarlegri biblíurannsóknir í ljós að þessir sauðumlíku menn væru hinir sömu og hinn ótaldi, mikli múgur manna sem lýst er í Opinberunarbókinni 7:9-17. Þeim myndi verða safnað út úr öllum þjóðum og ættu í vændum að lifa af þrenginguna miklu og hljóta eilíft líf á jörðinni. Þessi skilningur varð enn meiri drifkraftur fyrir prédikunarstarfið. — Jóhannes 10:16.
Árið 1931 tóku biblíunemendurnir sér nafnið vottar Jehóva. Fram að þeim tíma höfðu þeir verið þekktir sem Biblíunemendur, Alþjóðlegir biblíunemendur, Þúsundáraríkisfólk og Varðturnsfólk. Þeir voru jafnvel uppnefndir Russellítar og Rutherfordítar. Ekkert þessara nafna auðkenndi þá réttilega. Enda þótt nafnið kristnir menn, gefið lærisveinum Jesú
vegna guðlegrar forsjár á fyrstu öld, væri vissulega viðeigandi var það líka notað af fjölmörgum hópum sem fylgdu fölskum kenningum. Til að greina þá frá þeim milljónum, sem voru kristnir aðeins að nafninu til, þurfti nafn er væri greinilegt auðkenni sannra fylgjenda Krists á okkar dögum.Af Ritningunni var ljóst að þjónar Guðs við endalok þessa heimskerfis, sem voru vígðir því hlutverki að kunngera nafn hans og tilgang, ættu réttilega að kallast vottar Jehóva, á sama hátt og Jehóva hafði sjálfur kallað Ísraelsþjóðina votta sína. Þetta nafn hefur greint sannkristna dýkendur Jehóva vel frá öllum öðrum sem kalla sig kristna nú á dögum. — Sálmur 83:19, ísl. bi. 1908; Jesaja 43:10-12.
Árið 1942, meðan síðari heimsstyrjöldin var háð, lést Joseph F. Rutherford og Nathan H. Knorr tók við af honum sem forseti Varðturnsfélagsins. Þjónar Guðs gerðu sér nú ljóst að spádómar Biblíunnar sýndu greinilega, að komast myndi á friður á nýjan leik og frelsi gæfist til að auka prédikunarstarfið stórlega áður en heimskerfið liði undir lok. Í febrúar árið 1943 tók til starfa biblíuskóli á vegum Varðturnsfélagsins, nefndur Gíleað. Hlutverk hans var að þjálfa þjóna orðsins til trúboðsstarfs erlendis. Síðar sama ár var sérstakri þjálfunardagskrá fyrir þjónustuna bætt við hinar vikulegu samkomur votta Jehóva.
Árið 1950 hóf Félagið útgáfu nýrrar enskrar þýðingar Biblíunnar úr frummálunum, nefnd New World Translation of the Holy Scriptures (Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar). Kom hún fyrst út í nokkrum hlutum. Viðhöfð var mikil nákvæmni við þýðinguna og þess gætt að hún væri á auðskildu máli. Þessi biblía, prentuð með lágmarkstilkostnaði með prentvélum Félagsins, hefur verið mikil hjálp við prédikunarstarfið og nemur heildarupplag nú liðlega 40 milljónum á 11 tungumálum.
Við árslok 1985 tóku yfir þrjár milljónir votta Jehóva þátt í prédikunarstarfinu í liðlega 200 löndum og eyjum hafsins. Alls voru 7.792.109 viðstaddir minningarhátíðina um dauða Krists, fjölsóttustu samkomu sem haldin var í hinum 49.716 söfnuðum þeirra árið 1985.
Margt ber því vitni að Guð noti í sannleika votta Jehóva: Óþreytandi starf þeirra í þjónustu hans, eining þeirra út um allan heim, kostgæfni þeirra í því að halda nafni Jehóva á lofti og prédika ríki hans, hið háleita siðferði þeirra, það að þeir skuli viðurkenna alla Biblíuna sem óskeikult orð Guðs og vera algerlega lausir við hjátrú og spíritisma.
Kaflarnir sem á eftir fara lýsa því hvernig þú getur notið góðs af þessari endurreisn sannrar tilbeiðslu á Guði.
● Hvaða undirstöðukenningar Biblíunnar greindu biblíunemendurna frá kirkjufélögunum?
● Hvernig þróaðist skipulag biblíunemendanna fram til 1918?
● Með hvaða hætti má segja að hinir smurðu biblíunemendur í heild mynduðu hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ í Matteusi 24:45-47?
● Hvaða skilningur á tilgangi Guðs var hvati að því að efla prédikunarstarfið?
● Hvaða tilgangi þjónar nafnið vottar Jehóva?
● Hvað sannar að Guð notar í raun votta Jehóva?
[Myndir á blaðsíðu 8]
C. T. Russell árið 1879.
1. tölublað í júlí 1879.
Einn af fyrstu flokkum biblíunemenda í Pittsburgh.
[Myndir á blaðsíðu 9]
Aðalstöðvar 1879-1909 í Pittsburgh.
Aðalskrifstofa 1909-1918 í Brooklyn í New York.
Íbúðarhús starfsliðs 1909-1926 í Brooklyn.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Aðalstöðvar votta Jehóva í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum.
Efst til vinstri: Skrifstofur
Efst til hægri: Íbúðarbyggingar
Neðst til vinstri: Prentsmiðjur
Neðst til hægri: Dreifingarmiðstöð
[Myndir á blaðsíðu 11]
J. F. Rutherford flytur útvarpserindi.
Fyrsta hverfipressa Varðturnsfélagsins sem sjálfboðaliðar stjórnuðu.
Nýheimsþýðing Biblíunnar, nú gefin út á 11 tungumálum.