Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Söfnuðir til að byggja upp í kærleika og einingu

Söfnuðir til að byggja upp í kærleika og einingu

Söfnuðir til að byggja upp í kærleika og einingu

Vel má vera að þú hafir verið viðstaddur einhverjar af safnaðarsamkomum votta Jehóva í þínu byggðarlagi. Þar var fólk af öllum þjóðfélagsstigum, fjölskyldur, einhleypingar, ungir og aldnir. Allir voru þeir sameinaðir í tilbeiðslu sinni og áhugasamir um að hjálpa öðrum.

Hvenær sem fjölmennur hópur manna vill vinna af einhuga saman er einhver yfirumsjón nauðsynleg. Guð er Guð reglu og skipulags, og sú regla ætti einnig að birtast í söfnuðum þeirra sem þjóna honum. Eins og var á fyrstu öldinni eru hæfir, þroskaðir og reyndir kristnir karlmenn skipaðir öldungar eða umsjónarmenn. Þeir hafa umsjón með söfnuðinum og andlegum þörfum hans. Þeim til aðstoðar eru svonefndir safnaðarþjónar. Þeir þiggja engin laun fyrir í nokkurri mynd. Þjónusta þeirra er sjálfboðaþjónusta og þeir sjá fyrir sér sjálfir, að öllu jöfnu með veraldlegri vinnu. — 1. Korintubréf 14:33, 40; Filippíbréfið 1:1; 1. Tímóteusarbréf 3:8, 9.

Hvernig er vali þeirra háttað? Þeir þurfa að vera trúfastir þjónar Guðs sem hafa til að bera ákveðna hæfileika sem Ritningin tilgreinir. Þeirra á meðal má nefna það að vera ‚hófsamur að venju, heilbrigður í hugsun, reglufastur, gestrisinn, góður fræðari og sanngjarn.‘ Þeir mega ekki vera ‚fégjarnir eða nýir í trúnni og eiga að hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan,‘ ‚fastheldnir við hið áreiðanlega orð sem samkvæmt er kenningunni.‘ — 1. Tímóteusarbréf 3:1-15; Títusarbréfið 1:7-9.

Þessir menn eru ekki valdir til starfa með almennum kosningum í söfnuðinum þar sem meirihluti manna getur verið tiltölulega nýr í trúnni. Þess í stað fá þeir meðmæli þroskaðra og reyndra manna sem eru sjálfir öldungar og bera skyn á það í hvaða mæli þeir sem til greina koma uppfylla kröfur Ritningarinnar. Útnefning öldunga og safnaðarþjóna fer síðan fram undir yfirumsjón hins stjórnandi ráðs votta Jehóva, í samræmi við fyrirmynd kristna safnaðarins á fyrstu öld.

Þessir öldungar eða umsjónarmenn mynda ekki klerkastétt; þeir eru ekki yfirboðarar annarra. Eins og Jesús sagði verður hver sá sem tekur forystuna að vera þjónn allra. Í söfnuðum votta Jehóva eru öldungarnir samverkamenn í þágu ríkis Guðs. — Matteus 20:26, 27; 23:8-11; Rómverjabréfið 12:8; 1. Korintubréf 3:5; 4:1, 2; Kólossubréfið 4:11; 1. Þessaloníkubréf 5:12-14.

Umsjónarmennirnir hafa yfirumsjón með kennslunni, sem veitt er á samkomunum, og taka forystuna í prédikunarstarfinu. Prédikun fagnaðarerindisins um ríki Guðs á því svæði, sem söfnuðinum er falin umsjón með, er meginmarkmið safnaðarins. Þeir eru líka hirðar og heimsækja meðlimi safnaðarins til að hvetja þá eftir því sem þörf krefur. — Matteus 24:14; Postulasagan 1:8; 1. Þessaloníkubréf 2:11, 12; 5:14, 15; 2. Tímóteusarbréf 2:24-26; Hebreabréfið 13:17; Jakobsbréfið 5:13-16; 1. Pétursbréf 5:1-4.

Öldungarnir bera líka ábyrgð á því að áminna og aga hvern þann sem fer út á braut rangrar breytni og getur stefnt andlegum og siðferðilegum hreinleika og einingu safnaðarins í hættu. — 1. Korintubréf 5:4, 5, 7, 11-13; Títusarbréfið 1:9; 2:15; 3:10, 11.

Reglulegt samneyti við söfnuðinn opnar þér aðild að heilnæmu samfélagi og er þér til góðs andlega á marga vegu. — Sálmur 35:18; 84:11.

● Hverjir hafa umsjón með málefnum hinna einstöku safnaða?

● Á hvaða grundvelli eru umsjónarmenn valdir?

● Í hverju er ábyrgð þeirra fólgin?

[Mynd á blaðsíðu 13]

Umsjónarmenn kenna söfnuðinum, taka forystuna í prédikuninni hús úr húsi, uppörva og hvetja með heimsóknum, gefa ráð og áminningar þegar þörf krefur.