Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samkomur sem hvetja til kærleika og góðra verka

Samkomur sem hvetja til kærleika og góðra verka

Samkomur sem hvetja til kærleika og góðra verka

Frumkristni söfnuðurinn kom saman, yfirleitt á einkaheimilum, til að þiggja fræðslu og njóta uppbyggilegs félagsskapar. Söfnuðir votta Jehóva nú á dögum koma saman þrisvar í viku. Þér er velkomið að sækja hverja sem er af þessum samkomum. Samkomurnar byggjast ekki á formföstum helgisiðum heldur fræðslu frá Guði. Safnaðarsamkomurnar hefjast og þeim er lokið með söng og bæn. Aðgangur er ókeypis og engin samskot fara fram. — Postulasagan 4:23-31; 14:22; 15:32, 35; Rómverjabréfið 16:5; Kólossubréfið 4:15.

Vera má að á fyrstu samkomunni, sem þú sækir, verði flutt 45 mínútna ræða sem fjallar um biblíukenningar, spádóma eða heilræði varðandi kristilegt líferni. Að slíkri ræðu lokinni fer fram biblíunám byggt á grein í tímaritinu Varðturninn, sem er samin sérstaklega til náms í söfnuðinum. Námið er með eftirfarandi sniði: Lesin er efnisgrein í Varðturninum og stjórnandinn ber fram spurningu um efnið. Viðstaddir geta rétt upp hendina til marks um að þeir vilji svara. Yfirleitt eru gefnar nokkrar athugasemdir við hverja efnisgrein. Þetta nám tekur eina klukkustund.

Síðar í vikunni eru haldnar tvær aðrar þriggja stundarfjórðunga samkomur. Önnur er nefnd Guðveldisskólinn. Í honum er veitt þjálfun í því að taka saman upplýsingar um biblíuefni og kenna með sem áhrifaríkustum hætti. Fyrst fer fram sérstök kennsla sem stendur í 21 mínútu en síðan flytja nemendur stuttar ræður sem þeim hefur verið úthlutað með nokkrum fyrirvara. Að lokinni hverri ræðu gefur umsjónarmaður skólans leiðbeiningar um það hvernig nemandinn geti tekið framförum. Ýmsar kennslubækur hafa verið gerðar til notkunar í þessum skóla. Þeir sem sækja samkomur reglulega geta innritað sig, svo framarlega sem líf þeirra samræmist kristnum meginreglum.

Samkoman, sem á eftir kemur, er nefnd Þjónustusamkoma. Á henni eru þrjú til fjögur atriði sem fjalla um kynningu fagnaðarboðskaparins hús úr húsi, svo og aðra þætti þjónustunnar. Þessi atriði eru ýmist flutt sem ræður, umræður eða sýnikennsla, með einhverri þátttöku áheyrenda. Dagskráin er að verulegu leyti byggð á efni í Ríkisþjónustu okkar, litlu riti sem Varðturnsfélagið gefur út mánaðarlega.

Þriðja samkoman er haldin vikulega í smáum hópum, oftast á einkaheimilum á víð og dreif um starfssvæði safnaðarins. Á þessari námssamkomu er farið yfir valið biblíuefni með hjálp nýlegrar bókar sem Félagið hefur gefið út. Þar eð hópurinn er tiltölulega smár hafa allir gott tækifæri til að taka þátt í umræðunum, svo og til að kynnast hver öðrum betur.

Velflestir söfnuðir halda samkomur sínar í Ríkissal sem vottar Jehóva hafa reist sér. Frjáls framlög vottanna sjálfra standa undir byggingar- og rekstrarkostnaði, og oftast leggja sjálfboðaliðar fram alla vinnu án endurgjalds. Á samkomustöðunum eru baukar fyrir frjáls framlög þeirra sem vilja láta eitthvað af hendi rakna.

Safnaðarsamkomur hjálpa vottum Jehóva að fylgja því ráði sem gefið er í Hebreabréfinu 10:24, 25: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“

● Hvað er líkt með samkomum frumkristinna manna og samkomum votta Jehóva núna?

● Hvað fer fram á hinum fimm samkomum sem vottarnir halda í viku hverri?

● Hvernig eignast söfnuðirnir Ríkissali?

[Myndir á blaðsíðu 14]

Öldungur stjórnar námi með hjálp Varðturnsins í Bandaríkjunum.

Svipmynd frá Guðveldisskólanum á Færeyjum.

Námshópur á einkaheimili á eynni Yap.

Vottar Jehóva reisa Ríkissal í Texas í Bandaríkjunum á tveim dögum.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Ríkissalir í ýmsum löndum

Japan

Ástralía

Austurríki

Spánn