Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Djöflarnir ýta undir uppreisn gegn Guði

Djöflarnir ýta undir uppreisn gegn Guði

Sumar siðvenjur byggjast á þeirri lygi að hinir dánu geti séð okkur.

En hvers vegna keppast Satan og djöflar hans svona við að blekkja fólk? Vegna þess að þeir vilja að við tökum þátt með þeim í uppreisn þeirra. Þeir vilja að við tilbiðjum þá. Þeir vilja að við trúum lygum þeirra og iðkum það sem Jehóva líkar ekki. Mörg slík iðkun tekur til siðvenja sem tengjast hinum dánu.

Dauði ástvinar er mjög þungbær reynsla og það er eðlilegt og viðeigandi að láta í ljós sorg. Jesús „grét“ eftir að vinur hans, Lasarus, dó. — Jóhannes 11:35.

Margar eru siðvenjurnar sem tengjast dauðanum og þær eru mjög breytilegar frá einum heimshluta til annars. Margar þeirra stangast ekki á við frumreglur Biblíunnar. Sumar siðvenjur byggjast hins vegar á þeirri hugmynd að hinir dánu séu á lífi og geti séð lifandi fólk. Líkvökur, hömlulaus sorg og íburðarmiklar útfarir á allt rætur að rekja til óttans við að misþóknast anda hins dána manns. En þar sem „hinir dauðu vita ekki neitt,“ eru þeir sem iðka slíkt að styðja ósannindi Satans. — Prédikarinn 9:5.

Aðrar siðvenjur byggjast á þeirri lygi að hinir dánu þarfnist hjálpar okkar.

Aðrar siðvenjur og viðhafnarsiðir eru sprottnar af þeirri trú að hinir dánu þarfnist hjálpar hinna lifandi og geri þeim mein séu þeir ekki friðaðir. Í sumum löndum eru haldnar veislur og fórnir annaðhvort 40 dögum eða einu ári eftir dánardag manna. Álitið er að það hjálpi hinum látna að ‚stíga yfir‘ í andaheiminn. Þá er algengt að setja fram mat og drykk handa hinum dánu.

Þessar athafnir eru rangar af því að þær útbreiða lygar Satans um hina dánu. Myndi Jehóva hafa velþóknun á að við tækjum á einhvern veg þátt í siðvenjum sem byggðar eru á kenningum djöfla? Aldrei! — 2. Korintubréf 6:14-18.

Þjónar hins sanna Guðs taka engan þátt í athöfnum sem styðja lygar Satans. Í stað þess einbeita þeir sér í kærleika að því að hjálpa þeim sem lifandi eru og hughreysta þá. Þeir vita að þegar einhver er einu sinni dáinn getur aðeins Jehóva hjálpað honum. — Jobsbók 14:14, 15.

Guð fordæmir spíritisma

Sumt fólk kemst í samband við djöflana milliliðalaust eða í gegnum miðla. Það er kallað spíritismi eða andatrú. Vúdú, galdur, töfrar, spár og það að leita frétta af hinum dánu eru allt ákveðnar myndir spíritisma.

Guð er á móti svona hátterni. Hann krefst óskiptrar hollustu okkar og tilbeiðslu. — 2. Mósebók 20:5NW.

Biblían fordæmir þetta og segir: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni [Jehóva, NW ] andstyggilegur.“ — 5. Mósebók 18:10-12.

Hvers vegna varar Jehóva okkur svo sterklega við þessari iðkun?

Jehóva er annt um velferð okkar og varar okkur við öllum myndum spíritisma. Hann elskar fólk og ber umhyggju fyrir því og veit að samskipti við djöflana munu örugglega valda því þjáningum.

Nilda var andamiðill í Brasilíu. Djöflarnir fóru þannig með hana að hún leit vart glaðan dag. Hún segir svo frá: „Ég var haldin illum öndum . . . sem ráðskuðust með mig. Ég sveiflaðist á milli meðvitundar og meðvitundarleysis og var lögð með geðtruflanir inn á hæli. Djöflarnir ofsóttu mig svo mikið að taugarnar biluðu. Ég tók róandi lyf og fór að drekka og reykja án afláts. Þetta hélt áfram árum saman.“

Þeim sem iðka spíritisma farnast oft illa. þeir geta misst heimili sitt, frelsi eða jafnvel lífið.

Með hjálp Jehóva og votta hans sleit Nilda sig með tímanum lausa frá áhrifum djöflanna og lifir núna auðugu og heilnæmu lífi. Hún segir: „Ég legg ríkt á við alla að eiga aldrei, ekki eitt andartak, minnstu samskipti við [illu] andana.“