Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Djöflarnir staðhæfa ranglega að hinir dánu séu á lífi

Djöflarnir staðhæfa ranglega að hinir dánu séu á lífi

Biblían segir að Satan ‚afvegaleiði alla heimsbyggðina.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Satan og djöflar hans vilja ekki að við trúum orði Guðs, Biblíunni. Þeir reyna að láta fólk halda að hinir dánu séu lifandi einhvers staðar í andaheiminum. Við skulum athuga hvernig þeir fara að því.

Fölsk trúarbrögð

Menn, spendýr, fiskar og fuglar — öll eru sálir.

Mörg trúarbrögð kenna að sérhver maður hafi sál er flytjist yfir í andaheiminn eftir að líkaminn er dáinn. Þau segja að líkaminn deyi en sálin deyi ekki. Auk þess staðhæfa þau að sálin geti ekki dáið, að hún sé ódauðleg.

En orð Guðs kennir það ekki. Biblían sýnir að sálin er einstaklingurinn sjálfur, ekki eitthvað inni í honum. Til dæmis segir Biblían þegar hún lýsir sköpun Adams: „Þá myndaði Drottinn [Jehóva, NW] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Adam var því ekki gefin sál; hann var sál.

Dýr eru einnig kölluð sálir. — 1. Mósebók 1:20, 21, 24, 30.

Þar sem orðið „sál“ í Biblíunni merkir einstaklingurinn sjálfur ætti það ekki að vekja undrun okkar að heyra að sálir geti dáið og geri það. Ritningin segir:

  • „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ — Esekíel 18:4.

  • „Þá mælti Samson: ‚Deyi nú sála mín með Filistum!‘“ — Dómarabókin 16:30.

  • „Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi [sál, NW] eða deyða?“ — Markús 3:4.

Biblían sýnir að sálin er ekki ódauðleg.

Aðrir ritningarstaðir sýna að hægt er að tortíma sál (1. Mósebók 17:14, NW), vega með sverði (Jósúabók 10:37, NW), kæfa (Jobsbók 7:15, NW) og drekkja (Jónas 2:5, NW). Því deyr sálin.

Þótt þú lesir Biblíuna spjaldanna á milli munt þú aldrei finna orðalagið „ódauðleg sál.“ Sál mannsins er ekki andi. Kenningin um ódauðlega sál er ekki biblíukenning. Hún er kenning Satans og djöfla hans. Jehóva hatar alla trúarlega lygi. — Orðskviðirnir 6:16-19; 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2.

Andamiðlar

Djöflarnir þykjast vera andar hinna dánu.

Satan notar einnig miðla til að afvegaleiða fólk. Miðill er karl eða kona sem getur tekið á móti skilaboðum beint frá andaheiminum. Mikill fjöldi fólks, þar á meðal miðlarnir sjálfir, trúa að þessi skilaboð komi frá öndum hinna dánu. En eins og við höfum séð frá Biblíunni er það útilokað. — Prédikarinn 9:5, 6, 10.

Frá hverjum koma þá þessi skilaboð? Frá djöflunum sjálfum! Djöflarnir geta fylgst með einstaklingi meðan hann er á lífi; þeir vita hvernig hann talaði, hvernig hann leit út, hvað hann gerði og hvað hann kunni. Það er þess vegna auðvelt fyrir þá að líkja eftir dánu fólki. — 1. Samúelsbók 28:3-19.

Lygasögur

Lygasögur eru önnur leið Satans til að ýta undir lygina um hina dánu. Slíkar sögur gera fólk oft fráhverft sannleikanum sem Biblían kennir. — 2. Tímóteusarbréf 4:4.

Sumir halda sig sjá fólk er hafi snúið til baka frá dauðum.

Í Afríku eru margar munnmælasögur um fólk sem á að hafa sést eftir að það dó. Það er dæmigert að slíkt eigi sér stað langt frá heimahögum viðkomandi einstaklings. En spyrðu sjálfan þig: ,Ef einstaklingur hefur mátt til að snúa aftur frá dauðum, er þá rökrétt að hann komi fram á stað sem er víðsfjarri fjölskyldu hans og vinum?‘

Gæti ekki einnig hugsast að sá sem sást líkist aðeins þeim látna? Tveir kristnir þjónar orðsins, sem voru að prédika úti í sveit, tóku til dæmis eftir gömlum manni sem elti þá í nokkrar klukkustundir. Þegar þeir spurðu manninn komust þeir að raun um að hann hélt annan þeirra vera bróður sinn sem var dáinn fyrir nokkrum árum. Það var að sjálfsögðu rangt en hann neitaði að trúa að hann hefði á röngu að standa. Þú getur rétt ímyndað þér hvaða sögu gamli maðurinn hefur seinna sagt vinum sínum og nágrönnum!

Sýnir, draumar og raddir

Djöflarnir afvegaleiða með draumum, sýnum og röddum.

Vafalaust kannast þú við að fólk hafi séð, heyrt eða dreymt undarlega hluti. Slíkir yfirnáttúrlegir atburðir hræða oft þá sem verða fyrir þeim. Marein, sem bjó í Vestur-Afríku, heyrði reglulega rödd látinnar ömmu sinnar kalla á hana á nóttunni. Marein hljóðaði þá hátt og vakti allt heimilisfólkið. Að lokum bilaði hún á geðsmunum.

Ef hinir dánu væru á lífi í raun og veru, er þá skynsamlegt að halda að þeir hrelli ástvini sína? Auðvitað ekki. Svona skaðvænleg fyrirbæri eru komin frá djöflunum.

En hvað um fyrirbæri sem virðast vera til gagns og huggunar? Til dæmis var Gbassay frá Síerra Leóne veik. Hana dreymdi að faðir hennar heitinn birtist henni. Hann sagði henni að fara að ákveðnu tré, taka laufblað, leggja það í bleyti og drekka svo vatnið. Hún mátti ekki tala við nokkurn mann áður en hún gerði þetta. Hún fór eftir þessu og henni batnaði.

Önnur kona sagði að eiginmaður hennar hafi birst henni nótt eina eftir dauða sinn. Hún sagði að hann hafi litið mjög vel út og verið í fallegum fötum.

Slík skilaboð og sýnir virðast góð og gagnleg. Eru þau frá Guði? Nei, alls ekki. Jehóva er „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Aldrei myndi hann fallast á að hrekkja eða blekkja okkur. Aðeins djöflarnir gera slíkt.

En eru til góðir djöflar? Nei. Jafnvel þótt þeir virðist stundum hjálpsamir eru þeir allir illir. Satan djöfullinn virtist vingjarnlegur þegar hann talaði við Evu. (1. Mósebók 3:1) En hvaða afleiðingar hafði það fyrir hana að hlusta á hann og gera það sem hann sagði? Hún dó.

Satan sagði að Eva myndi ekki deyja. Eva trúði honum en dó þó að lokum.

Þú veist að það er ekki óalgengt að slæmur maður sé vingjarnlegur við þá sem hann ætlar að blekkja og svindla á. „Hvítar tennur, svart hjarta,“ segir afrískt máltæki. Og orð Guðs segir: „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.“ — 2. Korintubréf 11:14.

Guð hefur ekki lengur samband við menn í gegnum drauma, sýnir eða raddir frá andaheiminum. Hann leiðbeinir og gefur þeim fyrirmæli gegnum Biblíuna sem getur gert hvern sem er ‚albúinn og hæfan til sérhvers góðs verks.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:17.

Þegar Jehóva því varar okkur við vélabrögðum djöfulsins gerir hann það af kærleika til okkar. Hann veit að djöflarnir eru hættulegir óvinir.