Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Inngangur

Inngangur

Ég ólst upp í litlu þorpi í norðurhéraðinu,“ segir Dauda frá Síerra Leóne. „Eitt sinn, þegar ég var strákur, kom upp deila um land milli minnar fjölskyldu og annarrar. Báðar gerðu kröfu til sama lands. Kallað var á töframann til að jafna ágreininginn. Hann lét annan mann fá spegil og breiddi síðan yfir hann hvítan dúk. Brátt fór maðurinn undir dúknum að skjálfa og svitna. Hann horfði í spegilinn og hrópaði upp: ‚Ég sé gamlan mann koma! Hann er í hvítum klæðum. Hann er hávaxinn, gamall og gráhærður og gengur lítið eitt lotinn.‘

Hann var að lýsa afa! Því næst varð hann mjög æstur og hrópaði: ‚Ef þið trúið ekki því sem ég segi, komið þá sjálf og sjáið!‘ Að sjálfsögðu hafði ekkert okkar hugrekki til þess! Töframaðurinn róaði hann með því að skvetta á hann töframixtúru úr laufblöðum og vatni sem hann hafði í graskeri.

‚Afi‘ talaði í gegnum ‚spegilmanninn‘ og sagði að landið tilheyrði okkar fjölskyldu. Hann sagði ömmu að hún gæti áhyggjulaus nýtt landið. Hin fjölskyldan viðurkenndi þennan úrskurð. Deilan var útkljáð.“

Atvik sem þetta eru algeng í Vestur-Afríku. Þar, eins og í öðrum heimshlutum, trúa ótal milljónir manna að dáið fólk fari yfir í andaheiminn og geti þaðan fylgst með og haft áhrif á líf manna á jörðinni. Er þessi trú sönn? Eru hinir dánu í raun og veru lifandi? Ef ekki, hverjir eru það þá sem segjast vera andar hinna dánu? Það er bráðnauðsynlegt að vita rétta svarið við þessum spurningum. Líf okkar er í veði.