Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 10

Flóðið mikla

Flóðið mikla

FYRIR utan örkina gekk lífið sinn vanagang. Fólkið trúði ekki enn að flóðið myndi koma. Það hlýtur að hafa hlegið meira en nokkru sinni fyrr. En það hló ekki mjög lengi.

Skyndilega byrjaði að rigna. Vatnið dembdist niður af himni eins og hellt væri úr fötu. Nói hafði haft rétt fyrir sér! En núna var of seint fyrir fólkið að komast inn í örkina. Jehóva hafði harðlokað dyrunum.

Fljótlega var allt láglendið undir vatni. Vatnið varð eins og stórfljót. Það ruddi niður trjám og velti með sér stórum steinum með miklum gauragangi. Fólkið var hrætt. Það klifraði upp á hæðirnar. Ó, hve menn óskuðu þess nú að hafa hlustað á Nóa og komist inn í örkina meðan dyrnar stóðu þeim enn þá opnar! En núna var það um seinan.

Vatnið hækkaði stöðugt. Í 40 daga og 40 nætur helltist vatnið niður af himni. Það steig upp fjallshlíðarnar og bráðlega flaut jafnvel yfir hæstu fjöll. Þess vegna fórust allir sem voru fyrir utan örkina, bæði menn og skepnur, alveg eins og Guð hafði sagt. En allir sem voru inni í henni komust lífs af.

Nói og synir hans höfðu vandað sig við smíði arkarinnar. Vatnið lyfti henni upp og hún flaut. Þá gerðist það dag einn, eftir að það hætti að rigna, að sólin byrjaði að skína. Hvílík sjón! Aðeins eitt stórt haf svo langt sem augað eygði. Og það eina sem sást var örkin sem flaut á því.

Risarnir voru horfnir. Aldrei aftur myndu þeir vera á ferðinni til að meiða fólk. Þeir höfðu allir dáið og mæður þeirra einnig og allt hitt vonda fólkið. En hvað kom fyrir feður þeirra?

Feður risanna voru ekki mennskir menn í raun og veru eins og við. Þeir voru englar sem höfðu komið niður til jarðar til að lifa þar eins og menn. Þess vegna dóu þeir ekki í flóðinu eins og allir hinir. Þeir hættu að nota mannslíkamana, sem þeir höfðu búið sér til, og fóru aftur til himna sem englar. En nú var þeim ekki lengur leyft að vera hluti af englafjölskyldu Guðs. Þess vegna urðu þeir englar Satans. Í Biblíunni eru þeir kallaðir djöflar eða illir andar.

Núna lét Guð vind blása og flóðvatnið byrjaði að sjatna. Fimm mánuðum síðar tók örkin niðri á fjallstindi. Margir dagar liðu og þeir sem voru inni í örkinni gátu horft út og séð fjallatindana. Vatnið hélt áfram að lækka og lækka.

Þá sleppti Nói svörtum fugli, sem heitir hrafn, út úr örkinni. Hann flaug burt um tíma en kom síðan aftur af því að hann fann engan góðan stað til að setjast á. Þessu fór fram í nokkra daga og í hvert sinn kom hann aftur og settist á örkina.

Nói vildi vita hvort vatnið væri þornað af jörðinni og sendi því næst dúfu út af örkinni. En dúfan kom líka til baka því að hún fann engan dvalarstað. Nói sendi hana út í annað sinn og hún kom aftur með olíuviðarblað í gogginum. Þá vissi Nói að vatnið hafði sjatnað. Nói sendi dúfuna út í þriðja sinn og loksins fann hún þurran stað til að búa á.

Núna talaði Guð við Nóa. Hann sagði: ‚Farðu út úr örkinni. Taktu alla fjölskyldu þína og öll dýrin með þér.‘ Þau höfðu verið inni í örkinni í meira en heilt ár. Við getum rétt ímyndað okkur hve hamingjusöm þau voru að vera núna komin út aftur og vera lifandi!