Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 4

Hvers vegna þau misstu heimili sitt

Hvers vegna þau misstu heimili sitt

SJÁÐU hvað er að gerast hér! Það er verið að reka Adam og Evu út úr fallega aldingarðinum Eden. Veistu hvers vegna?

Það er vegna þess að þau gerðu eitthvað mjög slæmt og Jehóva er að refsa þeim fyrir það. Hvað var það sem Adam og Eva gerðu?

Þau gerðu dálítið sem Guð hafði bannað þeim. Guð sagði að þau mættu borða ávexti af trjánum í aldingarðinum. En af einu tré máttu þau ekki borða, sagði Guð, annars myndu þau deyja. Hann hélt þessu tré fyrir sig. Við vitum að það er rangt að taka eitthvað sem tilheyrir öðrum. Nú, hvað gerðist?

Dag einn, þegar Eva var einsömul í garðinum, talaði höggormur til hennar. Að hugsa sér! Hann sagði Evu að borða ávöxt af trénu sem Guð hafði sagt þeim að borða ekki af. Nú skapaði Jehóva ekki höggorma þannig að þeir gætu talað. Það hlýtur því að hafa verið einhver annar sem lét höggorminn tala. Hver var það?

Það var ekki Adam. Það hlaut því að vera einhver þeirra sem Jehóva skapaði löngu áður en hann skapaði jörðina. Það eru englarnir og við getum ekki séð þá. Einn af englunum var orðinn mjög hrokafullur. Hann var farinn að hugsa með sér að hann ætti að stjórna eins og Guð. Hann vildi að fólkið hlýddi sér í stað þess að hlýða Jehóva. Hann var sá engill sem lét höggorminn tala.

Englinum tókst að blekkja Evu. Hann sagði henni að hún yrði lík Guði ef hún borðaði ávöxtinn, og hún trúði honum. Þess vegna át hún ávöxt af trénu og Adam gerði það líka. Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og þess vegna misstu þau fallega heimilið sitt.

En sá tími mun koma að Guð lætur gera alla jörðina eins fallega og aldingarðurinn Eden var. Síðar í þessari bók munt þú læra um hvernig þú getur tekið þátt í því. En nú skulum við athuga hvernig fór fyrir Adam og Evu.