Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 8

Risar á jörðinni

Risar á jörðinni

HVAÐ myndir þú hugsa ef einhver gengi í áttina til þín og væri svo stór að hann næði alveg upp í loft heima hjá þér? Slíkur maður væri risi! Eitt sinn voru í raun og veru til risar á jörðinni. Biblían segir að feður þeirra hafi verið englar frá himni. En hvernig gat það verið?

Þú manst eftir því að illi engillinn, Satan, var iðinn við að valda vandræðum. Hann reyndi jafnvel að fá engla Guðs til að vera slæmir. Með tímanum fóru sumir þessara engla að hlusta á Satan. Þeir hættu að vinna það sem Guð ætlaðist til að þeir gerðu á himni. Og þeir komu niður til jarðarinnar og bjuggu sér til líkama eins og mennirnir hafa. Veistu af hverju?

Biblían segir að það hafi verið af því að þessir synir Guðs sáu fallegu konurnar á jörðinni og langaði til að búa með þeim. Þess vegna komu þeir til jarðar og kvæntust þessum konum. Biblían segir að þetta hafi verið rangt af því að Guð skapaði englana til að lifa á himni.

Englarnir og konur þeirra eignuðust börn en þau voru ólík öðrum börnum. Í fyrstu hafa þau ef til vill ekki virst mjög ólík þeim. En þau héldu áfram að vaxa, urðu stærri og stærri og sterkari og sterkari þangað til þau voru orðin risar.

Þessir risar voru vondir. Og vegna þess hve stórir og sterkir þeir voru meiddu þeir fólk. Þeir reyndu að neyða alla til að vera vondir eins og þeir sjálfir voru.

Enok var dáinn en það var núna til maður á jörðinni sem var góður. Þessi maður hét Nói. Hann gerði alltaf það sem Guð vildi að hann gerði.

Dag einn sagði Guð við Nóa að tími væri kominn til að hann eyddi öllu vonda fólkinu. En Guð ætlaði að varðveita Nóa, fjölskyldu hans og mörg dýr. Við skulum athuga hvernig Guð gerði það.