Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 30

Þyrnirunninn logandi

Þyrnirunninn logandi

MÓSE var kominn alla leið til Hórebfjalls í leit að haga fyrir sauðina. Þá sá hann þar þyrnirunna sem stóð í ljósum loga en brann þó ekki upp!

‚Þetta er undarlegt,‘ hugsaði Móse. ‚Ég ætla að fara nær og skoða þetta betur.‘ Hann gerði það en þá heyrðist rödd frá runnanum sem sagði: ‚Komdu ekki nær. Taktu af þér ilskóna af því að þú stendur á heilagri jörð.‘ Það var Guð sem talaði í gegnum engil og þess vegna byrgði Móse andlit sitt.

Þá sagði Guð: ‚Ég hef séð þjáningar þjóðar minnar í Egyptalandi. Ég ætla að frelsa hana og mun senda þig til að leiða þjóð mína út úr Egyptalandi.‘ Jehóva ætlaði að flytja þjóð sína til hins fallega Kanaanlands og þar skyldi hún búa.

En Móse sagði: ‚Ég? Hvernig get ég gert það? En setjum svo að ég fari. Þá munu Ísraelsmenn bara spyrja mig: „Hver sendi þig?“ Hverju svara ég þá?‘

‚Þetta átt þú að segja,‘ svaraði Guð: ‚„JEHÓVA, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hefur sent mig til ykkar.“‘ Og Jehóva bætti við: ‚Þetta er nafn mitt um alla eilífð.‘

‚En hvað nú ef þeir trúa mér ekki þegar ég segi að þú hafir sent mig,‘ svaraði Móse.

‚Hvað ertu með í hendinni?‘ spurði Guð.

‚Staf,‘ svaraði Móse.

‚Kastaðu honum á jörðina,‘ sagði Guð. Móse gerði það og stafurinn varð að höggormi! Jehóva sýndi Móse þá annað kraftaverk. Hann sagði: ‚Stingdu hendinni inn undir kyrtil þinn.‘ Móse gerði það og þegar hann dró hana út aftur var hún hvít sem snjór! Það var eins og hinn slæmi sjúkdómur, sem kallaður er holdsveiki eða líkþrá, væri kominn í höndina. Jehóva gaf Móse einnig vald til að gera þriðja kraftaverkið. Að lokum sagði hann: ‚Þegar þú gerir þessi kraftaverk munu Ísraelsmenn trúa að ég hafi sent þig.‘

Eftir þetta fór Móse heim og sagði við Jetró: ‚Leyfðu mér að fara aftur til ættmenna minna í Egyptalandi til að sjá hvernig þeim líður.‘ Jetró kvaddi þá Móse sem lagði af stað til Egyptalands.