Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 13

Abraham – vinur Guðs

Abraham – vinur Guðs

EINN þeirra staða, þar sem fólk settist að eftir flóðið, hét Úr. Þar var byggð mikil borg með fallegum húsum. En fólkið þar tilbað falsguði. Það gerðu menn einnig í Babel. Íbúar Úr og Babel voru ekki eins og Nói og Sem, sonur hans, sem héldu áfram að þjóna Jehóva.

Að lokum, 350 árum eftir flóðið, dó hinn trúfasti Nói. Aðeins tveim árum seinna fæddist maðurinn sem þú sérð á myndinni. Hann var mjög sérstakur maður í augum Guðs. Hann hét Abraham. Hann bjó með fjölskyldu sinni í borginni Úr.

Dag einn sagði Jehóva við Abraham: ‚Farðu burt frá Úr og ættingjum þínum og farðu til lands sem ég mun sýna þér.‘ Ætli Abraham hafi hlýtt Jehóva og yfirgefið öll þægindin í Úr? Já, og vegna þess að Abraham hlýddi Guði alltaf var hann kallaður vinur Guðs.

Nokkrir úr fjölskyldu Abrahams fóru með honum þegar hann yfirgaf Úr. Það gerðu bæði Tara, faðir hans, og Lot, bróðursonur hans. Og auðvitað fór Sara, eiginkona Abrahams, einnig. Þau komu síðan öll til staðar sem hét Harran og þar dó Tara. Þau voru komin langt í burtu frá Úr.

Að nokkrum tíma liðnum fóru Abraham og fjölskylda hans frá Harran og komu til lands sem nefndist Kanaan. Þá sagði Jehóva: ‚Þetta er landið sem ég mun gefa börnum þínum.‘ Abraham settist að í Kanaan og bjó í tjöldum.

Guð hjálpaði Abraham svo að hann eignaðist stóra sauðahjörð og önnur dýr og mörg hundruð þjóna. En hann og Sara voru barnlaus.

Þegar Abraham var 99 ára sagði Jehóva: ‚Ég lofa þér að þú munt verða faðir margra þjóða.‘ En hvernig gæti það átt sér stað þar sem Abraham og Sara voru núna orðin of gömul til að eignast barn?