Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 20

Dína kemst í klandur

Dína kemst í klandur

SÉRÐU hverja Dína er að heimsækja? Hún ætlar að hitta nokkrar af ungu stúlkunum sem búa í Kanaanlandi. Ætli Jakobi, föður hennar, myndi líka það? Til að hjálpa þér að svara þeirri spurningu skaltu reyna að muna eftir hvað Abraham og Ísak fannst um konurnar í Kanaan.

Vildi Abraham að Ísak, sonur hans, kvæntist stúlku frá Kanaan? Nei, það vildi hann ekki. Vildu Ísak og Rebekka að Jakob, sonur þeirra, kvæntist kanverskri stúlku? Nei, það vildu þau ekki. Veistu hvers vegna?

Það var vegna þess að fólkið í Kanaan tilbað falsguði. Það var ekki gott að leita sér að eiginmanni eða eiginkonu meðal þessa fólks og ekki heldur gott að gerast náinn vinur þess. Við getum þess vegna verið viss um að Jakob var ekki ánægður með það að dóttir hans skyldi gera þessar kanversku stúlkur að vinkonum sínum.

Eins og við var að búast komst Dína í klandur. Sérðu manninn á myndinni sem horfir á Dínu? Hann er kanverskur og heitir Síkem. Dag nokkurn, þegar Dína kom í heimsókn, tók hann Dínu og þvingaði hana til að leggjast með sér. Það var rangt af því að aðeins maður og kona, sem eru hjón, mega leggjast hvort með öðru. Það sem Síkem gerði Dínu var slæmt og leiddi til enn meiri og alvarlegri vandamála.

Bræður Dínu urðu ævareiðir þegar þeir fréttu hvað hafði gerst. Tveir þeirra, Símeon og Leví, voru svo reiðir að þeir tóku sverð sín og gengu inn í borgina og komu mönnunum að óvörum. Þeir og bræður þeirra drápu Síkem og alla hina mennina. Jakob reiddist því að synir hans skyldu fremja slíkt illvirki.

Hvers vegna byrjuðu öll þessi vandræði? Vegna þess að Dína leitaði sér að vinum meðal fólks sem hlýddi ekki lögum Guðs. Slíka vini viljum við ekki eignast, eða hvað finnst þér?