Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 25

Fjölskyldan flytur til Egyptalands

Fjölskyldan flytur til Egyptalands

JÓSEF hefur ekki lengur vald á tilfinningum sínum. Hann lætur alla þjóna sína fara út. Þegar hann er orðinn einn með bræðrum sínum brestur hann í grát. Við getum ímyndað okkur hve undrandi bræður hans eru því að þeir vita ekki hvers vegna hann grætur. Að lokum segir hann: ‚Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?‘

Bræður hans eru orðlausir af undrun. Þeir eru hræddir. En Jósef segir: ‚Komið nær.‘ Þeir gera það og hann segir: ‚Ég er Jósef, bróðir ykkar, sem þið selduð til Egyptalands.‘

Jósef heldur áfram í vingjarnlegum tón: ‚Ásakið sjálfa ykkur ekki lengur fyrir að selja mig hingað. Það var í raun og veru Guð sem sendi mig til Egyptalands til þess að bjarga mannslífum. Faraó hefur gert mig að stjórnanda yfir öllu Egyptalandi. Flýtið ykkur nú heim til föður míns og segið honum þetta. Og segið honum að koma og búa hérna.‘

Jósef fellur um háls bræðrum sínum, faðmar þá alla og kyssir. Þegar Faraó heyrir að bræður Jósefs séu komnir segir hann við Jósef: ‚Láttu þá fá vagna og fara heim og sækja föður sinn og fjölskyldur og koma síðan aftur hingað. Ég mun svo gefa þeim besta landið í öllu Egyptalandi.‘

Og það gerðu þeir. Á myndinni sérð þú Jósef hitta föður sinn þegar hann er kominn til Egyptalands með alla fjölskyldu sína.

Fjölskylda Jakobs var orðin mjög stór. Þetta var 70 manna fjölskylda sem fluttist til Egyptalands þegar Jakob er talinn og öll börn hans og barnabörn. Þar að auki voru eiginkonurnar og eflaust einnig margt þjónustufólk. Öll settust þau að í Egyptalandi. Þau voru kölluð Ísraelsmenn vegna þess að Guð hafði breytt nafni Jakobs í Ísrael. Ísraelsmenn urðu mjög sérstakt fólk í augum Guðs, eins og við munum sjá síðar.