Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 14

Guð reynir trú Abrahams

Guð reynir trú Abrahams

SÉRÐU hvað Abraham er að gera hér? Hann heldur á hníf og það lítur út fyrir að hann ætli að drepa son sinn. Hvernig getur honum dottið annað eins í hug? Fyrst skulum við heyra hvernig Abraham og Sara eignuðust son.

Þú manst að Guð lofaði þeim að þau myndu eignast son. En það virtist ómögulegt af því að Abraham og Sara voru orðin svo gömul. Abraham trúði samt sem áður að Guð gæti gert það sem virtist ómögulegt. Og hvað gerðist þá?

Eftir að Guð gaf loforð sitt leið heilt ár. Þá, þegar Abraham var 100 ára og Sara 90 ára, fæddist þeim sonur sem nefndur var Ísak. Guð hafði haldið loforð sitt!

En þegar Ísak var orðinn stálpaður reyndi Guð trú Abrahams. Hann kallaði: ‚Abraham!‘ Og Abraham svaraði: ‚Hér er ég!‘ Þá sagði Guð: ‚Taktu son þinn, einkason þinn, Ísak, og farðu til fjalls sem ég mun vísa þér á. Þar skalt þú deyða son þinn og færa hann að fórn.‘

Það er alveg víst að Abraham varð mjög sorgmæddur þegar hann heyrði þetta af því að hann elskaði son sinn heitt. Og mundu að Guð hafði lofað að börn Abrahams myndu búa í Kanaanlandi. En hvernig gæti það orðið ef Ísak væri dáinn? Abraham skildi það ekki en hlýddi samt Guði.

Þegar Abraham kom til fjallsins batt hann Ísak og lagði hann á altarið sem hann hafði reist. Þá dró hann upp hnífinn til að deyða son sinn. En í sömu andrá kallaði engill Guðs: ‚Abraham, Abraham!‘ Og Abraham svaraði: ‚Hér er ég!‘

‚Meiddu ekki sveininn og gerðu honum ekkert,‘ sagði Guð. ‚Nú veit ég að þú trúir á mig af því að þú hefur ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.‘

Sannarlega hafði Abraham sterka trú á Guð! Hann trúði að ekkert væri Jehóva ómögulegt og að Jehóva gæti jafnvel reist Ísak upp frá dauðum. En í raun og veru vildi Guð ekki að Abraham deyddi Ísak. Þess vegna lét hann hrút festast í runna þar rétt hjá og lét Abraham fórna honum í stað sonar síns.