Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 29

Hvers vegna Móse flúði

Hvers vegna Móse flúði

MÓSE er að flýja frá Egyptalandi. Sérðu mennina sem elta hann? Veistu hvers vegna þeir vilja drepa Móse? Gáum hvort við getum komist að því.

Móse ólst upp í húsi Faraós, drottnara Egyptalands. Hann varð mjög vitur og áhrifamikill maður. Hann vissi að hann var ekki Egypti heldur að hinir réttu foreldrar hans voru ísraelskir þrælar.

Dag einn, þegar Móse var 40 ára, ákvað hann að fara og athuga hvernig Ísraelsmönnum vegnaði. Það var farið hræðilega illa með þá. Hann sá Egypta berja ísraelskan þræl. Móse leit í kringum sig, og þegar hann hélt að enginn sæi til sló hann Egyptann til bana. Síðan faldi Móse lík hans í sandinum.

Næsta dag fór Móse aftur út til að hitta fólkið sitt. Hann hélt að hann gæti hjálpað því svo að það þyrfti ekki að vera þrælar. Þá sá hann tvo Ísraelsmenn vera að slást og sagði við þann sem hafði á röngu að standa: ‚Hvers vegna ertu að lemja bróður þinn?‘

Maðurinn svaraði: ‚Hver hefur gert þig að höfðingja og dómara yfir okkur? Ætlar þú að drepa mig eins og þú drapst Egyptann?‘

Móse varð hræddur. Nú vissi hann að menn hefðu komist að því sem hann hafði gert við Egyptann. Jafnvel Faraó frétti það og sendi út menn til að drepa Móse. Þess vegna varð Móse að flýja frá Egyptalandi.

Móse fór langt burt frá Egyptalandi, alla leið til Midíanslands. Þar hitti hann mann sem hét Jetró og fjölskyldu hans og kvæntist einni af dætrum hans sem hét Sippóra. Móse gerðist fjárhirðir og gætti sauða Jetrós. Í 40 ár bjó hann í Midíanslandi. Nú var hann orðinn 80 ára. Þá, dag einn á meðan Móse gætti sauða Jetrós, átti sér stað stórfurðulegt atvik sem breytti öllu lífi hans. Flettu blaðsíðunni og við skulum sjá hvað gerðist sem var svona furðulegt.