Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 12

Menn byggja stóran turn

Menn byggja stóran turn

MÖRG ár liðu. Synir Nóa eignuðust fullt af börnum. Og þeirra börn uxu upp og eignuðust líka börn. Fljótlega var orðið margt fólk á jörðinni.

Einn af þessu fólki var sonarsonarsonur Nóa. Hann hét Nimrod. Hann var vondur maður sem veiddi og drap bæði dýr og menn. Nimrod gerði líka sjálfan sig að konungi til að ráða yfir öðru fólki. Guði geðjaðist ekki að Nimrod.

Í þá daga töluðu allir sama tungumál. Nimrod vildi halda öllu fólkinu saman á einum stað til þess að hann gæti ríkt yfir því. Veistu hvað hann gerði til þess? Hann sagði fólkinu að byggja borg og stóran turn í borginni. Á myndinni sérðu fólk búa til múrsteina.

Jehóva Guð var ekki ánægður með þessa byggingu. Hann vildi að fólkið dreifði sér út um alla jörðina. En fólkið sagði: ‚Komum nú! Við skulum byggja borg og turn svo háan að hann nái til himins. Þá verðum við fræg!‘ Þetta fólk sóttist eftir að heiðra sjálft sig en ekki Guð.

Guð lét fólkið þess vegna hætta við að byggja turninn. Veistu hvernig hann fór að því? Hann lét það skyndilega fara að tala mismunandi tungumál í staðinn fyrir aðeins eitt. Þeir sem unnu við bygginguna gátu ekki lengur skilið hver annan. Þess vegna var borgin þeirra síðan kölluð Babel eða Babýlon, sem þýðir „ruglingur.“

Fólkið fór nú að flytja burt frá Babel. Þeir sem töluðu sama tungumálið fóru saman í hópum til annarra staða á jörðinni og settust þar að.