Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 47

Þjófur í Ísrael

Þjófur í Ísrael

SJÁÐU hvað maðurinn er að grafa í tjaldinu sínu! Fallega skikkju, gullstöng og nokkra silfurpeninga. Hann hefur tekið þessa hluti úr Jeríkó. En hvað átti að gera við alla hlutina í Jeríkó? Manstu það?

Ætlast var til að þeir yrðu eyðilagðir og gullið og silfrið átti að gefa til fjárhirslunnar í samfundatjaldi Jehóva. Þetta fólk hefur því óhlýðnast Guði. Það hefur stolið því sem tilheyrir Guði. Maðurinn heitir Akan og þau sem eru með honum tilheyra fjölskyldu hans. Sjáum nú hvað gerist.

Eftir að Akan hefur stolið þessum hlutum sendir Jósúa nokkra menn til að berjast gegn borginni Aí. En þeir tapa orrustunni. Nokkrir eru drepnir og hinir flýja. Jósúa er mjög hryggur. Hann leggst niður með andlitið til jarðar og biður til Jehóva: ‚Hvers vegna hefur þú látið þetta koma fyrir okkur?‘

Jehóva svarar: ‚Stattu upp! Ísrael hefur syndgað. Þeir hafa tekið suma þá hluti sem átti að eyðileggja eða gefa til samfundatjalds Jehóva. Þeir stálu fagurri skikkju og földu hana. Ég mun ekki blessa ykkur fyrr en þið eyðið henni og þeim sem hefur tekið þessa hluti.‘ Jehóva segist munu sýna Jósúa hver þessi vondi maður sé.

Jósúa safnar nú öllu fólkinu saman og Jehóva bendir á vonda manninn Akan. Akan segir: ‚Ég hef syndgað. Ég sá fallega skikkju og gullstöngina og silfrið. Mig langaði svo í það að ég tók það. Þú munt finna það grafið inni í tjaldinu mínu.‘

Hlutirnir finnast og eru færðir Jósúa. Hann segir þá við Akan: ‚Hvers vegna hefur þú valdið okkur ógæfu? Núna mun Jehóva valda þér ógæfu!‘ Því næst grýtir fólkið Akan og fjölskyldu hans til bana. Sýnir þetta ekki að við ættum aldrei að taka hluti sem ekki tilheyra okkur?

Eftir þetta fara Ísraelsmenn aftur af stað til að berjast við Aí. Í þetta sinn hjálpar Jehóva fólki sínu og það vinnur sigur í orrustunni.