Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 42

Asni talar

Asni talar

HEFUR þú nokkurn tíma heyrt um asna sem talaði? ‚Nei,‘ segir þú ef til vill. ‚Dýr geta ekki talað.‘ En Biblían segir frá asna sem gerði það. Við skulum nú sjá hvernig það gerðist.

Ísraelsmenn eru næstum tilbúnir að fara inn í Kanaanland. Balak, konungurinn í Móab, hræðist Ísraelsmenn. Þess vegna sendir hann eftir klókum manni, sem heitir Bíleam, til að láta hann formæla Ísraelsmönnum. Balak lofar að gefa Bíleam mikla peninga og Bíleam stígur því á bak asna sínum og leggur af stað til að hitta Balak.

Jehóva vill ekki að Bíleam formæli fólki sínu. Hann sendir því engil sem er með langt sverð og tekur sér stöðu á veginum til að stöðva Bíleam. Bíleam getur ekki séð engilinn en það getur asninn. Asninn reynir hvað eftir annað að komast fram hjá englinum og að lokum leggst hann bara niður á veginn. Bíleam er mjög reiður og lemur asnann með priki.

Allt í einu lætur Jehóva Bíleam heyra asnann tala við sig. ‚Hvað hef ég gert þér til að þú skulir berja mig?‘ spyr asninn.

‚Þú hefur gert gys að mér,‘ segir Bíleam. ‚Ef ég hefði sverð myndi ég drepa þig!‘

‚Er ég þá vanur að koma svona fram við þig?‘ spyr asninn.

‚Nei,‘ svarar Bíleam.

Þá lætur Jehóva Bíleam sjá engilinn með sverðið standa á veginum. Engillinn segir: ‚Hvers vegna hefur þú barið asnann þinn? Ég er kominn til að standa í vegi fyrir þér af því að þú átt ekki að fara og formæla Ísrael. Ef asninn þinn hefði ekki vikið fyrir mér hefði ég drepið þig en asnanum þínum hefði ég hlíft.‘

Bíleam segir: ‚Ég hef syndgað. Ég vissi ekki að þú stæðir á veginum.‘ Þá leyfir engillinn Bíleam að halda áfram ferð sinni til Balaks. Bíleam reynir samt að formæla Ísrael en þess í stað lætur Jehóva hann blessa Ísrael þrisvar.