Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 41

Eirormurinn

Eirormurinn

SÝNIST þér þetta vera raunverulegur höggormur sem hefur vafið sig utan um stöngina? Það er það ekki. Höggormurinn er úr eiri. Jehóva sagði Móse að setja hann á stöngina svo að fólkið gæti litið á hann og haldið lífi. En hinir höggormarnir á jörðinni eru raunverulegir. Þeir hafa bitið fólkið svo að það veikist. Veistu hvers vegna?

Það er vegna þess að Ísraelsmenn hafa talað gegn Guði og Móse. Þeir mögla: ‚Hvers vegna leiddir þú okkur út úr Egyptalandi til að deyja í þessari eyðimörk? Hér er hvorki matur né vatn. Og við þolum ekki þetta manna lengur.‘

En þetta manna er góður og hollur matur. Jehóva hefur með kraftaverki gefið þeim það. Og með kraftaverki hefur hann einnig gefið þeim vatn. En fólkið er ekki þakklátt fyrir það hvernig Guð hefur annast það. Þess vegna refsar Jehóva Ísraelsmönnum með því að láta þessa eitruðu höggorma koma. Höggormarnir bíta þá og margir deyja.

Að lokum kemur fólkið til Móse og segir: ‚Við höfum syndgað vegna þess að við töluðum gegn Jehóva og gegn þér. Bið þú nú til Jehóva að hann taki þessa höggorma í burtu.‘

Móse biður þá fyrir fólkinu. Og Jehóva segir Móse að búa til þennan eirorm. Hann segir að setja skuli eirorminn upp á stöng og að hver sem verði fyrir biti skuli líta á hann. Móse gerir nákvæmlega eins og Guð segir. Og þeir sem hafa verið bitnir líta á eirorminn og verða aftur heilbrigðir.

Af þessu má læra lexíu. Á vissan hátt erum við öll eins og þessir Ísraelsmenn sem höggormarnir bitu. Við erum öll í ástandi sem dregur okkur til dauða. Líttu í kringum þig — þú sérð að þegar fólk eldist þá hrörnar það, veikist og deyr að lokum. Það er vegna þess að fyrsti maðurinn og konan, Adam og Eva, sneru baki við Jehóva og við erum öll börn þeirra. En Jehóva hefur opnað okkur leið til að geta lifað að eilífu.

Jehóva sendi son sinn, Jesú Krist, til jarðar. Jesús var hengdur upp á staur af því að margir héldu að hann væri vondur maður. En Jehóva hafði sent Jesú til að frelsa okkur. Ef við lítum til hans, ef við fylgjum honum, þá getum við öðlast eilíft líf. Við munum læra meira um það seinna.