Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 52

Gídeon og menn hans 300

Gídeon og menn hans 300

SÉRÐU hvað hér er um að vera? Þetta eru allt ísraelskir hermenn. Mennirnir, sem beygja sig niður að vatninu, eru að fá sér að drekka. Maðurinn, sem stendur rétt hjá þeim, er Gídeon dómari. Hann fylgist með hvernig þeir drekka vatnið.

Taktu vel eftir hve mennirnir drekka á mismunandi hátt. Sumir þeirra beygja höfuðið alveg niður að vatninu. En einn tekur vatnið upp í lófann til þess að geta fylgst með því sem gerist í kringum hann. Þetta er mikilvægt því að Jehóva sagði Gídeon að velja aðeins þá menn sem eru vel á verði meðan þeir drekka. Hina á að senda heim, segir Guð. Sjáum nú hvers vegna.

Ísraelsmenn eru aftur komnir í nauðir. Ástæðan er sú að þeir hafa ekki hlýtt Jehóva. Midíanítar hafa náð þeim á sitt vald og fara illa með þá. Ísraelsmenn ákalla þess vegna Jehóva um hjálp og Jehóva hlustar á hróp þeirra.

Jehóva segir Gídeon að koma sér upp her og Gídeon safnar því saman 32.000 hermönnum. En í óvinahernum eru 135.000 manns. Samt sem áður segir Jehóva við Gídeon: ‚Þú hefur of marga menn.‘ Hvers vegna segir Jehóva það?

Það er vegna þess að vinni Ísraelsmenn stríðið gætu þeir haldið að þeir hefðu gert það í eigin mætti. Þeir gætu haldið að þeir þyrftu ekki hjálp Jehóva til að vinna. Því segir Jehóva við Gídeon: ‚Segðu öllum mönnunum sem eru hræddir að fara aftur heim.‘ Það gerir Gídeon og 22.000 af hermönnum hans fara heim. Nú hefur hann aðeins 10.000 menn eftir til að berjast gegn öllum þessum 135.000 hermönnum.

En hlustaðu nú! Jehóva segir: ‚Þú hefur enn of marga menn.‘ Það er þá að hann segir Gídeon að láta mennina drekka úr læknum. Allir sem beygja höfuðið alveg niður að vatnsborðinu til að drekka skulu sendir heim. ‚Ég mun gefa þér sigur með þeim 300 mönnum sem voru á verði á meðan þeir drukku,‘ lofar Jehóva.

Bardagastundin nálgast. Gídeon skipar 300 mönnum sínum í þrjá hópa. Hann gefur hverjum manni lúður og krús með blysi í. Um miðnætti raða þeir sér kringum herbúðir óvinarins. Þá blása þeir allir samtímis í lúðrana og brjóta krúsirnar og hrópa: ‚Sverð Jehóva og Gídeons!‘ Óvinirnir í herbúðunum vakna og eru alveg ringlaðir og hræddir. Þeir leggja allir á flótta og Ísraelsmenn vinna orrustuna.