KAFLI 53
Loforð Jefta
HEFUR þú nokkurn tíma gefið loforð og seinna fundist erfitt að halda það? Maðurinn á þessari mynd gerði það og þess vegna er hann svona leiður. Hann heitir Jefta og er hugrakkur dómari í Ísrael.
Jefta er uppi á tímum þegar Ísraelsmenn eru hættir að tilbiðja Jehóva. Þeir eru aftur farnir að gera það sem illt er. Jehóva lætur þess vegna Ammóníta fara illa með þá. Ísraelsmenn hrópa nú aftur til Jehóva: ‚Við höfum syndgað móti þér. Frelsaðu okkur!‘
Fólkið iðrast þess illa sem það hefur gert. Það sýnir iðrun sína með því að fara aftur að tilbiðja Jehóva. Þá hjálpar Jehóva Ísraelsmönnum á nýjan leik.
Fólkið velur Jefta til að berjast á móti vondu Ammónítunum. Jefta óskar þess heitt að Jehóva hjálpi honum í bardaganum. Þess vegna gefur hann Jehóva þetta loforð: ‚Ef þú gefur mér sigur yfir Ammónítum þá mun ég gefa þér þann fyrsta sem kemur út úr húsi mínu á móti mér þegar ég kem heim að sigri loknum.‘
Jehóva hlustar á loforð Jefta og hjálpar honum að vinna sigur. Og hver heldur þú að sé fyrstur til að koma út á móti Jefta þegar hann kemur aftur heim? Það er dóttir hans, einkabarnið hans. ‚Æ, dóttir mín!‘ hrópar Jefta. ‚Hvílíkri sorg veldur þú mér. En ég hef gefið Jehóva loforð og get ekki tekið það aftur.‘
Þegar dóttir Jefta heyrir um loforðið verður hún í fyrstu sorgmædd líka af því að það þýðir að hún muni þurfa að fara í burtu frá föður sínum og vinum. Það sem eftir er ævinnar mun hún nota til að þjóna Jehóva við samfundatjaldið í Síló. Hún segir því við föður sinn: ‚Ef þú hefur gefið Jehóva loforð verður þú að efna það.‘
Dóttir Jefta fer þess vegna til Síló og þjónar Jehóva til æviloka við samfundatjald hans. Fjóra daga á ári hverju fara konurnar í Ísrael að heimsækja hana og þær eiga saman ánægjustundir. Fólkinu þykir vænt um dóttur Jefta vegna þess hve góður þjónn Jehóva hún er.