Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 51

Rut og Naomí

Rut og Naomí

Í BIBLÍUNNI finnur þú bók sem kölluð er Rutarbók. Hún fjallar um fjölskyldu sem lifði á þeim tímum er dómarar voru í Ísrael. Rut er ung kona frá Móabslandi; hún tilheyrir ekki þjóð Guðs, Ísrael. En þegar Rut lærir um hinn sanna Guð, Jehóva, fer hún að elska hann mjög heitt. Naomí er roskin kona sem hjálpaði Rut að læra um Jehóva.

Naomí er ísraelsk. Hún fluttist ásamt eiginmanni sínum og tveim sonum til Móabslands þegar skortur var á matvælum í Ísrael. Þá dag nokkurn dó maður Naomí. Seinna kvæntust synir Naomí tveim móabítískum stúlkum sem hétu Rut og Orpa. En um það bil 10 árum síðar dóu báðir synir Naomí. Naomí og ungu konurnar tvær voru mjög sorgmæddar. Hvað skyldi Naomí gera núna?

Dag einn ákveður Naomí að leggja upp í hina löngu ferð heim til þjóðar sinnar. Rut og Orpa vilja vera hjá henni svo að þær fara líka. En þegar þær eru komnar nokkuð áleiðis segir Naomí við ungu konurnar: ‚Snúið aftur heim og verið hjá mæðrum ykkar.‘

Naomí kyssir þær í kveðjuskyni. En þá fara þær að gráta af því að þeim þykir mjög vænt um Naomí. ‚Nei!‘ segja þær. ‚Við viljum fara með þér til þíns fólks.‘ En Naomí svarar: ‚Þið verðið að snúa við, dætur mínar. Það er betra fyrir ykkur að vera heima.‘ Orpa snýr þá heim á leið en Rut ekki.

Naomí snýr sér að henni og segir: ‚Orpa er farin. Farðu heim með henni.‘ En Rut svarar: ‚Neyddu mig ekki til að fara frá þér! Leyfðu mér að koma með þér. Hvert sem þú ferð vil ég fara og þar sem þú býrð vil ég búa. Þitt fólk mun vera mitt fólk og þinn Guð mun vera minn Guð. Þar sem þú deyrð vil ég deyja og þar vil ég vera grafin.‘ Þegar Rut segir þetta reynir Naomí ekki lengur að fá hana til að snúa aftur heim.

Að lokum koma konurnar tvær til Ísraels og setjast þar að. Rut byrjar strax að vinna á ökrunum vegna þess að bygguppskeran er hafin. Maður að nafni Bóas leyfir henni að tína saman bygg á ökrum sínum. Veistu hver var móðir Bóasar? Það var Rahab frá borginni Jeríkó.

Dag einn segir Bóas við Rut: ‚Ég hef heyrt allt um þig og hve góð þú hefur verið við Naomí. Ég veit að þú hefur yfirgefið föður þinn og móður og ættland þitt og ert komin til að búa á meðal fólks sem þú hefur aldrei þekkt áður. Megi Jehóva vera þér góður!‘

Rut svarar: ‚Þú ert mjög góður við mig, herra. Mér líður miklu betur eftir að þú hefur talað svona vingjarnlega við mig.‘ Bóas er mjög hrifinn af Rut og ekki líður á löngu þar til þau giftast. En hvað Naomí verður glöð! En Naomí verður enn hamingjusamari þegar Rut og Bóas eignast sinn fyrsta son, Óbeð. Óbeð verður afi Davíðs sem við munum læra mikið um seinna.