Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 62

Ófriður í húsi Davíðs

Ófriður í húsi Davíðs

EFTIR að Davíð byrjar að ríkja í Jerúsalem gefur Jehóva her hans marga sigra yfir óvinunum. Jehóva hafði lofað að gefa Ísraelsmönnum Kanaanland. Og núna, með hjálp Jehóva, eignast þeir loksins allt það land sem þeim var lofað.

Davíð er góður stjórnandi. Hann elskar Jehóva og því lætur hann það verða eitt sitt fyrsta verk, eftir að hafa lagt undir sig Jerúsalem, að flytja sáttmálsörk Jehóva þangað. Og hann langar til að byggja musteri til að hafa örkina í.

En seinna á ævinni gerir Davíð sig sekan um alvarleg mistök. Hann veit að það er rangt að taka eitthvað sem tilheyrir öðrum. En kvöld eitt, þegar hann gengur uppi á þaki hallar sinnar, lítur hann niður og sér mjög fallega konu. Hún heitir Batseba og maðurinn hennar heitir Úría og er einn af hermönnum Davíðs.

Davíð þráir Batsebu svo mikið að hann lætur sækja hana og færa til hallarinnar. Eiginmaður hennar er í burtu í hernaði. Davíð leggst með henni og síðar kemst hún að því að hún á von á barni. Davíð er mjög áhyggjufullur og sendir Jóab, herforingja sínum, þau skilaboð að hann skuli láta Úría í fremstu víglínu þar sem hann verði drepinn. Þegar Úría er dáinn kvænist Davíð Batsebu.

Jehóva er Davíð mjög reiður. Hann sendir þjón sinn, Natan spámann, til að segja honum til syndanna. Hér á myndinni sérð þú Natan tala við Davíð. Davíð sér mjög eftir því sem hann hefur gert og þess vegna lætur Jehóva hann ekki deyja. En Jehóva segir: ‚Vegna þess að þú hefur gerst sekur um svo slæman verknað mun verða ófriður og erfiðleikar í húsi þínu.‘ Og það rætist svo sannarlega!

Fyrst deyr sonur Batsebu. Þá ræðst elsti sonur Davíðs, Amnon, á Tamar, systur sína, og neyðir hana til að leggjast með sér. Absalon, sonur Davíðs, verður svo reiður að hann drepur Amnon. Síðar fær Absalon marga menn til fylgis við sig og lætur gera sig að konungi. Að lokum vinnur Davíð stríðið við Absalon sem er drepinn. Já, Davíð mæta margar sorgir og erfiðleikar.

Meðan á öllu þessu gengur elur Batseba son sem er látinn heita Salómon. Þegar Davíð er orðinn gamall og sjúkur reynir Adónía, sonur hans, að verða konungur. En Davíð fær prest, sem heitir Sadók, til að hella olíu á höfuð Salómons til að sýna að Salómon eigi að verða konungur. Skömmu síðar deyr Davíð sjötugur að aldri. Hann ríkti í 40 ár, en núna er Salómon konungur í Ísrael.