Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 60

Abígail og Davíd

Abígail og Davíd

HVER er þessi fallega kona sem kemur hér til fundar við Davíð? Hún heitir Abígail. Hún er skynsöm kona og hún hindrar Davíð í að fremja vonskuverk. En áður en við heyrum um það skulum við sjá hvernig Davíð hefur vegnað.

Davíð felur sig í helli eftir að hann flýr frá Sál. Bræður hans og öll fjölskylda er þar með honum. Um það bil 400 menn koma til Davíðs og hann gerist foringi þeirra. Davíð fer síðan til Móabskonungs og segir: ‚Leyfðu föður mínum og móður að dvelja hjá þér þar til ég sé hvað um mig verður.‘ Síðan hafast Davíð og menn hans við í felum í fjöllunum.

Það er eftir þetta að Davíð hittir Abígail. Eiginmaður hennar, Nabal, er auðugur landeigandi. Hann á 3000 kindur og 1000 geitur. Nabal er nískur maður en Abígail, kona hans, er mjög falleg og veit einnig hvernig á að gera það sem rétt er, enda bjargar hún eitt sinn allri fjölskyldunni. Sjáum hvernig hún fer að því.

Davíð og menn hans hafa verið hjálpsamir við Nabal og aðstoðað við að vernda sauði hans. Dag einn sendir Davíð nokkra manna sinna til að biðja Nabal um greiða. Menn Davíðs hitta Nabal þegar hann og vinnumenn hans eru að rýja sauðina. Það er veisludagur og Nabal er með mikið af góðum mat. Menn Davíðs segja: ‚Við höfum sýnt þér góðvild. Við höfum ekki stolið neinum sauði frá þér heldur hjálpað mönnum þínum að gæta þeirra. Sýndu okkur nú þá góðvild að gefa okkur svolítið af mat.‘

‚Ég gef ekki mat minn mönnum eins og ykkur,‘ svarar Nabal. Hann er hinn nískasti og talar illa um Davíð. Þegar mennirnir koma aftur og segja Davíð frá verður hann mjög reiður. ‚Grípið sverðin ykkar,‘ segir hann við þá. Þeir leggja síðan af stað til að drepa Nabal og menn hans.

Einn af mönnum Nabals, sem heyrði illmæli hans, segir Abígail hvað gerst hefur. Abígail tekur strax til nokkuð af mat. Hún leggur hann upp á fáeina asna og heldur af stað. Þegar hún mætir Davíð stígur hún af baki asna sínum, beygir sig niður og segir: ‚Herra, þú skalt ekki skeyta neitt um manninn minn, Nabal. Hann er heimskingi og hegðar sér heimskulega. Hér er gjöf. Taktu við henni og fyrirgefðu okkur það sem gerst hefur.‘

‚Þú ert hyggin kona,‘ svarar Davíð. ‚Þú hefur aftrað mér frá að drepa Nabal til að gjalda honum illsku hans. Farðu nú heim í friði.‘ Seinna, þegar Nabal deyr, verður Abígail ein af konum Davíðs.