Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 58

Davíð og Golíat

Davíð og Golíat

NÚ HERJA Filistar aftur á Ísrael. Þrír elstu bræður Davíðs eru komnir í her Sáls. Dag einn segir Ísaí við Davíð: ‚Farðu með dálítið af korni og brauði til bræðra þinna. Fáðu að vita hvernig þeim líður.‘

Davíð fer til herbúðanna og hleypur síðan að víglínunni til að leita að bræðrum sínum. Þá gengur fram Filistinn og risinn Golíat til að gera gys að Ísraelsmönnum. Hann hefur gert það á hverjum morgni og kvöldi í 40 daga. Hann æpir: ‚Veljið einn af mönnum ykkar til að berjast við mig. Ef hann vinnur og drepur mig munum við verða þrælar ykkar. En ef ég vinn og drep hann verðið þið þrælar okkar. Ég skora á ykkur að finna einhvern til að berjast við mig.‘

Davíð spyr nokkra hermenn: ‚Hvað fær sá maður sem drepur Filistann og losar Ísrael við þessa skömm?‘

‚Sál mun gefa þeim manni mikil auðæfi,‘ svara hermennirnir. ‚Og hann mun gefa honum sína eigin dóttur fyrir konu.‘

En Ísraelsmennirnir eru allir hræddir við Golíat af því að hann er svo stór. Hann er um 3 metrar á hæð og hefur annan hermann til að bera skjöldinn fyrir sig.

Nokkrir hermenn fara og segja Sál að Davíð vilji berjast við Golíat. En Sál segir við Davíð: ‚Þú getur ekki barist við Filistann. Þú ert bara drengur en hann hefur verið hermaður alla ævi.‘ Davíð svarar: ‚Ég drap björn og ljón sem komu og tóku sauði föður míns. Það skal fara fyrir þessum Filista eins og þeim. Jehóva mun hjálpa mér.‘ Þá segir Sál: ‚Farðu og megi Jehóva vera með þér.‘

Davíð fer niður að læk og sækir fimm hála steina og setur þá í töskuna sína. Síðan tekur hann steinslöngvuna sína og fer á móti risanum. Golíat trúir varla sínum eigin augum. Það verður mjög auðvelt að drepa Davíð, hugsar hann.

‚Komdu þá,‘ segir Golíat, ‚og ég mun gefa fuglunum og dýrunum hold þitt að éta.‘ En Davíð segir: ‚Þú kemur á móti mér með sverð, lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Jehóva. Í dag mun Jehóva gefa þig í mínar hendur og ég mun drepa þig.‘

Um leið hleypur Davíð í áttina til Golíats. Hann tekur stein úr töskunni, lætur hann í slöngvuna og kastar honum af öllu afli. Steinninn þeytist beint í ennið á Golíat og hann fellur dauður niður! Þegar Filistar sjá að kappinn þeirra er fallinn snúa þeir allir við og flýja. Ísraelsmenn elta þá og vinna orrustuna.