Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 59

Davíð verður að flýja

Davíð verður að flýja

ER DAVÍÐ hefur drepið Golíat leiðir Abner, hershöfðingi í Ísrael, hann fyrir Sál. Sál er mjög ánægður með Davíð. Hann gerir hann að foringja í hernum og lætur hann búa í húsi konungs.

Þegar herinn síðar snýr aftur úr bardaga við Filista syngja konurnar: ‚Sál hefur drepið þúsundir en Davíð tíþúsundir.‘ Sál verður öfundsjúkur vegna þess að Davíð fær meiri heiður en hann. En Jónatan, sonur Sáls, er ekki öfundsjúkur. Honum þykir mjög vænt um Davíð og Davíð elskar Jónatan líka. Þeir lofa hvor öðrum að vera alltaf vinir.

Davíð er mjög góður hörpuleikari og Sál þykir gott að hlusta á hann leika. En dag einn fær öfund Sáls hann til að gera nokkuð hræðilegt. Á meðan Davíð leikur á hörpuna tekur Sál spjótið sitt og kastar því og segir: ‚Ég skal negla Davíð við vegginn!‘ En Davíð skýtur sér undan og spjótið geigar. Sál reynir aftur seinna en hittir Davíð ekki heldur í það skiptið með spjótinu. Nú veit Davíð að hann verður að vera mjög varkár.

Manstu eftir loforðinu sem Sál gaf? Hann lofaði að gefa þeim manni dóttur sína sem dræpi Golíat. Loks segir Sál við Davíð að hann megi eiga Míkal, dóttur sína, en fyrst verði hann að drepa 100 Filista. Að hugsa sér! Sál vonar í raun og veru að Filistarnir drepi Davíð. En það gera þeir ekki svo að Sál gefur Davíð dóttur sína sem eiginkonu.

Dag einn segir Sál við Jónatan og alla þjóna sína að hann vilji drepa Davíð. En Jónatan segir við föður sinn: ‚Ekki gera Davíð mein. Hann hefur aldrei gert þér neitt illt. Þvert á móti hefur hann hjálpað þér mikið með öllu sem hann hefur gert. Hann hætti lífi sínu þegar hann drap Golíat og þú gladdist þegar þú sást það.‘

Sál fer að ráðum sonar síns og lofar að gera Davíð ekki mein. Davíð er sóttur og aftur þjónar hann Sál í húsi hans eins og áður. En dag nokkurn, þegar Davíð er að spila fyrir Sál, kastar Sál aftur spjóti sínu að honum. Davíð beygir sig og spjótið stingst í vegginn. Þetta er í þriðja sinn! Nú veit Davíð að hann verður að flýja!

Þetta kvöld fer Davíð heim í hús sitt. En Sál sendir nokkra menn til að drepa hann. Míkal veit um ráðagerð föður síns og þess vegna segir hún við mann sinn: ‚Ef þú forðar þér ekki í nótt verður þú drepinn á morgun.‘ Um nóttina hjálpar Míkal Davíð að flýja út um glugga. Í sjö ár verður Davíð að vera í felum á ýmsum stöðum svo að Sál finni hann ekki.