Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 72

Guð hjálpar Hiskía konungi

Guð hjálpar Hiskía konungi

VEISTU hvers vegna þessi maður biður til Jehóva? Hvers vegna hefur hann lagt þessi bréf fyrir framan altari Jehóva? Maðurinn heitir Hiskía. Hann er konungur yfir ættkvíslunum tveim í suðurhluta Ísraels. Og núna á hann í miklum erfiðleikum. Hvers vegna?

Ástæðan er sú að her Assýríumanna hefur þegar lagt tíuættkvíslaríkið í norðri í eyði. Jehóva leyfði það vegna illsku fólksins sem þar bjó. Og nú er her Assýringa kominn til að ráðast á tveggjaættkvíslaríkið.

Assýríukonungur er nýbúinn að senda Hiskía konungi bréf. Það eru bréfin sem Hiskía hefur lagt hér fram fyrir Guð. Í bréfunum er gert grín að Jehóva og Hiskía sagt að gefast upp. Þess vegna biður Hiskía: ‚Jehóva, frelsa okkur frá Assýríukonungi. Þá munu allar þjóðir vita að þú einn ert Guð.‘ Ætli Jehóva hlusti á Hiskía?

Hiskía er góður konungur. Hann líkist ekki vondu konungunum í tíuættkvíslaríkinu í Ísrael né föður sínum, hinum vonda Akasi konungi. Hiskía hefur gætt þess að hlýða öllum lögum Jehóva. Þegar Hiskía hefur lokið bæn sinni sendir spámaðurinn Jesaja honum þess vegna boðskap frá Jehóva: ‚Assýríukonungur mun ekki koma inn í Jerúsalem. Enginn af hermönnum hans mun koma nálægt henni. Þeir munu engri ör skjóta að borginni.‘

Líttu á myndina hér á blaðsíðunni. Hverjir skyldu allir þessir dauðu hermenn vera? Þetta eru Assýringar. Jehóva sendi engil sinn og á einni nóttu drap engillinn 185.000 hermenn Assýringa. Assýríukonungur gefst þá upp og snýr heim.

Tveggjaættkvíslaríkinu er borgið og friður ríkir um stund. En þegar Hiskía er dáinn verður Manasse, sonur hans, konungur. Bæði Manasse og sonur hans, Amón sem tekur við af föður sínum, eru mjög vondir konungar. Landið fyllist því aftur glæpum og ofbeldi. Þjónar Amóns konungs myrða hann og þá er sonur hans, Jósía, gerður að konungi tveggjaættkvíslaríkisins.