Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 57

Guð velur Davíð

Guð velur Davíð

SÉRÐU hvað hefur gerst? Drengurinn hefur bjargað litla lambinu frá birninum. Björninn hremmdi lambið og ætlaði að bera það burt og éta það. En drengurinn hljóp á eftir birninum og bjargaði lambinu úr gini hans. Og þegar björninn reis upp á móti honum greip drengurinn í hann og sló hann til bana! Í annað skipti bjargaði hann sauð frá ljóni. Er hann ekki hugrakkur? Veistu hver drengurinn er?

Hann heitir Davíð og á heima í bænum Betlehem. Afi hans var Óbeð, sonur Rutar og Bóasar. Manstu eftir þeim? Og faðir Davíðs heitir Ísaí. Davíð gætir sauða föður síns. Hann fæddist 10 árum eftir að Jehóva valdi Sál sem konung.

Sú stund kemur að Jehóva segir við Samúel: ‚Taktu með þér smurningarolíuna og farðu til húss Ísaí í Betlehem. Ég hef valið einn af sonum hans sem konung.‘ Þegar Samúel sér Elíab, elsta son Ísaí, segir hann við sjálfan sig: ‚Þetta er áreiðanlega sá sem Jehóva hefur valið.‘ En Jehóva segir við hann: ‚Líttu ekki á hve hár og myndarlegur hann er. Ég hef ekki valið hann sem konung.‘

Þá kallar Ísaí á næsta son sinn, Abínadab, og leiðir hann fram fyrir Samúel. En Samúel segir: ‚Nei, Jehóva hefur ekki heldur valið hann.‘ Næst leiðir Ísaí fram son sinn Samma. ‚Nei, hann hefur Jehóva heldur ekki valið,‘ segir Samúel. Ísaí leiðir fram fyrir Samúel sjö af sonum sínum en Jehóva velur engan þeirra. ‚Eru þetta allir synir þínir?‘ spyr Samúel.

‚Sá yngsti er enn þá eftir,‘ segir Ísaí. ‚En hann er úti að gæta sauðanna.‘ Þegar Davíð er sóttur sér Samúel að hann er fríður og myndarlegur drengur. ‚Þetta er hann,‘ segir Jehóva. ‚Helltu olíunni á hann.‘ Og Samúel gerir það. Sá tími mun renna upp að Davíð verður konungur yfir Ísrael.