Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 73

Síðasti góði konungurinn í Ísrael

Síðasti góði konungurinn í Ísrael

JÓSÍA er aðeins átta ára gamall þegar hann verður konungur yfir ættkvíslunum tveimur í suðurhluta Ísraels. Það er mjög ungur aldur fyrir konung. Í byrjun hjálpa því nokkrir fullorðnir menn honum að stjórna þjóðinni.

Þegar Jósía hefur verið konungur í sjö ár byrjar hann að leita Jehóva. Hann fylgir góðu fordæmi konunga eins og Davíðs, Jósafats og Hiskía. Þá, þegar hann er ekki enn orðinn tvítugur, sýnir hann mikið hugrekki.

Um langt skeið hafa flestir Ísraelsmenn verið mjög vondir. Þeir tilbiðja falsguði og beygja sig fyrir skurðgoðum. Jósía leggur þess vegna af stað með mönnum sínum og byrjar að útrýma falskri tilbeiðslu úr landinu. Það er mikið verk af því að svo margir tilbiðja falsguði. Hér sérðu Jósía og menn hans mölbrjóta skurðgoðin.

Að því loknu lætur Jósía þrjá menn stjórna viðgerð á musteri Jehóva. Fjársöfnun fer fram meðal fólksins og þessir þrír menn fá peningana til þess að borga fyrir þá vinnu sem gera þarf. Meðan verið er að vinna við musterið finnur Hilkía, æðsti prestur, eitthvað mjög mikilvægt þar. Það er sjálf lögmálsbókin sem Jehóva lét Móse rita niður fyrir langa löngu. Hún hefur verið týnd í mörg ár.

Farið er með bókina til Jósía og hann lætur lesa hana upp fyrir sig. Þegar Jósía hlustar skilur hann að þjóðin hefur ekki haldið lögmál Jehóva. Honum finnst það mjög sorglegt og þess vegna rífur hann fötin sín eins og þú sérð á myndinni. Hann segir: ‚Jehóva er okkur reiður af því að feður okkar héldu ekki lögin sem rituð eru í þessari bók.‘

Jósía skipar æðsta prestinum Hilkía að komast að því hvað Jehóva ætli að gera við þá. Hilkía fer til spákonu sem heitir Hulda og spyr hana. Hún fær honum þennan boðskap sem svar Jehóva til Jósía: ‚Jerúsalem og öllu fólkinu mun verða refsað vegna þess að það hefur tilbeðið falsguði og fyllt landið af illskuverkum. En af því að þú, Jósía, hefur breytt vel mun refsingin ekki koma fyrr en eftir dauða þinn.‘