Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 68

Tveir drengir vaktir til lífs

Tveir drengir vaktir til lífs

HVERNIG heldur þú að móður þinni liði ef þú myndir deyja en fengir svo lífið aftur? Hún yrði ákaflega glöð! En getur sá sem er dáinn lifnað við? Hefur það nokkru sinni gerst?

Líttu á þennan mann, konuna og drenginn. Maðurinn er Elía spámaður. Konan er ekkja í borginni Sarefta og drengurinn er sonur hennar. Dag nokkurn veikist drengurinn. Honum versnar stöðugt þar til hann að lokum deyr. Elía segir þá við konuna: ‚Láttu mig fá drenginn.‘

Elía fer með dáið barnið upp á loft og leggur það í rúmið. Síðan biður hann: ‚Jehóva, láttu drenginn fá lífið aftur.‘ Og drengurinn byrjar að anda! Þá fer Elía með hann niður aftur og segir við konuna: ‚Sjáðu, sonur þinn er lifandi!‘ Þess vegna er móðirin svona hamingjusöm.

Annar merkur spámaður Jehóva heitir Elísa. Hann er hjálparmaður Elía. En seinna lætur Jehóva Elísa einnig gera kraftaverk. Dag einn fer Elísa til borgarinnar Súnem. Þar er kona sem tekur mjög vel á móti honum. Síðar eignast þessi kona lítinn dreng.

Drengurinn eldist og stækkar og morgun einn fer hann út að hjálpa föður sínum á akrinum. Allt í einu hrópar drengurinn: ‚Ég finn svo til í höfðinu!‘ Það er farið heim með hann og þar deyr hann. Móðir hans er harmi slegin! Hún leggur strax af stað til að ná í Elísa.

Elísa kemur og gengur rakleitt inn í herbergið þar sem dáni drengurinn liggur. Hann biður til Jehóva og leggst ofan á drenginn. Bráðlega hitnar líkami drengsins og hann hnerrar sjö sinnum. Mikið er móðir hans hamingjusöm þegar hún kemur inn og finnur drenginn sinn á lífi!

Mikill fjöldi fólks hefur dáið, fjölskyldum sínum og vinum til mikillar sorgar. Við getum ekki vakið þá dánu til lífs á ný. En það getur Jehóva. Seinna munum við læra um það hvernig hann mun gefa mörgum milljónum manna lífið aftur.