Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 63

Vitri konungurinn Salómon

Vitri konungurinn Salómon

SALÓMON er ekki orðinn tvítugur þegar hann verður konungur. Hann elskar Jehóva og fylgir þeim góðu ráðum sem Davíð, faðir hans, gaf honum. Jehóva er ánægður með Salómon og nótt eina segir hann við hann í draumi: ‚Salómon, hvað viltu að ég gefi þér?‘

Salómon svarar: ‚Jehóva, Guð minn, ég er mjög ungur og kann ekki að stjórna. Gefðu mér visku til að stjórna þjóð þinni á réttan hátt.‘

Jehóva er ánægður með bón Salómons og segir: ‚Af því að þú baðst um visku en ekki langlífi eða auðæfi mun ég gefa þér meiri visku en nokkur annar sem lifað hefur. En ég mun einnig gefa þér það sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður.‘

Skömmu seinna koma tvær konur til Salómons með erfitt vandamál. ‚Þessi kona og ég búum í sama húsi,‘ útskýrir önnur þeirra. ‚Ég fæddi son og tveim dögum síðar fæddi hún einnig sveinbarn. Þá nótt eina dó barn hennar. En þegar ég var sofandi lagði hún dána barnið sitt hjá mér en tók barnið mitt. Þegar ég vaknaði og leit á dána barnið sá ég að það var ekki mitt barn.‘

Þá segir hin konan: ‚Nei, ég á barnið sem er lifandi en hún á dána barnið!‘ Fyrri konan svarar: ‚Nei, þú átt dána barnið og ég á það sem er lifandi!‘ Þannig þræta konurnar. Hvað gerir Salómon nú?

Hann lætur koma með sverð og segir síðan: ‚Höggvið lifandi barnið í tvennt og fáið konunum sinn helminginn hvorri.‘

‚Nei!‘ hrópar rétta móðirin. ‚Ekki drepa barnið. Gefið henni það heldur!‘ En hin konan segir: ‚Gefið hvorugri okkar það; höggvið það bara í sundur.‘

Þá segir Salómon: ‚Drepið ekki barnið! Gefið hinni konunni drenginn. Hún er rétta móðirin.‘ Salómon veit það vegna þess að hin raunverulega móðir elskar barnið svo mikið að hún er fús til að gefa hinni konunni það svo að það verði ekki drepið. Þegar það spyrst út hvernig Salómon leysti þetta vandamál er fólkið mjög glatt að hafa svona vitran konung.

Í stjórnartíð Salómons blessar Guð þjóðina með því að láta jörðina gefa af sér mikið af hveiti og byggi, vínberjum og fíkjum og öðrum fæðutegundum. Fólkið klæðist góðum fötum og býr í traustum húsum. Allir hafa meira en nóg af öllu því sem gott er.