Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 66

Vonda drottningin Jesebel

Vonda drottningin Jesebel

EFTIR að Jeróbóam konungur deyr er hver einasti konungur vondur sem ríkir yfir tíuættkvíslaríkinu í Ísrael. Akab konungur er verstur allra. Veistu hvers vegna? Ein meginástæðan er eiginkona hans, vonda drottningin Jesebel.

Jesebel er ekki frá Ísrael. Hún er dóttir konungsins í Sídon. Hún dýrkar falsguðinn Baal og fær Akab og marga Ísraelsmenn líka til að tilbiðja Baal. Jesebel hatar Jehóva og drepur marga spámenn hans. Aðrir verða að fela sig í hellum til að bjarga lífi sínu. Ef Jesebel vill fá eitthvað er hún tilbúin að drepa aðra til að fá það.

Dag einn liggur mjög illa á Akab. Jesebel spyr hann: ‚Hvers vegna liggur svona illa á þér í dag?‘

‚Vegna þess sem Nabót sagði við mig,‘ svarar Akab. ‚Ég vildi kaupa víngarðinn hans en hann neitaði mér um hann.‘

‚Hafðu engar áhyggjur,‘ segir Jesebel. ‚Ég skal útvega þér hann.‘

Jesebel skrifar nú bréf til nokkurra tignarmanna í borginni þar sem Nabót býr. ‚Fáið nokkra samviskulausa menn til að segja að Nabót hafi formælt Guði og konunginum,‘ skrifar hún. ‚Farið síðan með hann út fyrir borgina og grýtið hann til bana.‘

Strax og Jesebel fréttir að Nabót sé dáinn segir hún við Akab: ‚Farðu nú og taktu víngarðinn hans.‘ Finnst þér ekki Jesebel eiga refsingu skilið fyrir svona hræðilegan verknað?

Loks sendir Jehóva mann, sem heitir Jehú, til að refsa henni. Þegar Jesebel fréttir að Jehú sé á leiðinni málar hún sig um augun og reynir að gera sig fallega. En þegar Jehú kemur og sér Jesebel standa við gluggann kallar hann til mannanna í höllinni: ‚Kastið henni niður!‘ Mennirnir hlýða eins og þú sérð á myndinni. Þeir kasta henni niður og hún deyr. Svona fór fyrir vondu drottningunni Jesebel.