Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 82

Mordekai og Ester

Mordekai og Ester

FÖRUM nú aftur í tímann þar til nokkrum árum áður en Esra fór til Jerúsalem. Mordekai og Ester eru áhrifamestu Ísraelsmennirnir í Persaríki. Ester er drottning og Mordekai, frændi hennar, gengur næstur konungi að völdum. Við skulum nú sjá hvernig það atvikaðist.

Ester var barn að aldri er foreldrar hennar dóu og þess vegna hefur Mordekai alið hana upp. Ahasverus Persakonungur á höll í borginni Súsan og Mordekai er einn af þjónum hans. Dag einn óhlýðnast Vastí drottning manni sínum og konungurinn velur sér nýja konu sem drottningu. Veistu hvaða konu hann velur? Hina ungu og fallegu Ester.

Sérðu þennan drambsama mann sem fólkið hneigir sig fyrir? Þetta er Haman. Hann er mjög voldugur maður í Persíu. Haman vill að Mordekai, sem þú sérð hér sitjandi, hneigi sig einnig. En það vill Mordekai ekki. Honum finnst ekki rétt að beygja sig í lotningu fyrir svona vondum manni. Haman verður ævareiður og hyggur á hefndir.

Haman segir konunginum lygasögur um Ísraelsmenn. ‚Þeir eru vondir menn sem hlýða ekki lögum þínum,‘ segir hann. ‚Það ætti að taka þá af lífi.‘ Ahasverus veit ekki að Ester, eiginkona hans, er Ísraelsmaður. Hann hlustar á Haman og lætur setja lög þess efnis að á ákveðnum degi skulu allir Ísraelsmenn drepnir.

Mordekai verður mjög órótt þegar hann frétir af þessum lögum. Hann sendir skilaboð til Esterar: ‚Þú verður að tala við konunginn og biðja hann að bjarga okkur.‘ Í Persíu er það dauðasök að ganga óboðinn fram fyrir konung. En Ester gengur inn óboðin. Konungurinn réttir gullsprota sinn út í móti henni en það þýðir að hún megi halda lífi. Ester býður konunginum og Haman til veislu. Þar spyr konungurinn Ester hvað hún vilji að hann geri fyrir hana. Ester segir að hún muni segja honum það ef hann og Haman komi til annarrar veislu daginn eftir.

Í þeirri veislu segir Ester við konunginn: ‚Ákveðið hefur verið að lífláta mig og útrýma þjóð minni.‘ Konungurinn reiðist. ‚Hver dirfist að gera slíkt?‘ spyr hann.

‚Óvinurinn er þessi vondi Haman!‘ segir Ester.

Nú er konungur bálreiður. Hann skipar að Haman skuli hengdur. Því næst gerir konungurinn Mordekai næstan sér að völdum. Mordekai kemur því þá til leiðar að ný lög eru sett sem leyfa Ísraelsmönnum að berjast fyrir lífi sínu þann dag sem ætlunin er að drepa þá. Af því að Mordekai er núna háttsettur maður koma margir Ísraelsmönnum til hjálpar og þeim er bjargað frá óvinum sínum.