Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 78

Skriftin á veggnum

Skriftin á veggnum

HVAÐ er að gerast hér? Konungurinn í Babýlon heldur mikla veislu og hefur boðið til hennar þúsund stórmennum. Þeir nota bikara og skálar úr gulli og silfri sem tekin voru úr musteri Jehóva í Jerúsalem. En allt í einu birtist mannshönd í lausu lofti og fingur hennar byrja að skrifa á vegginn. Allir verða frávita af hræðslu.

Belsasar, sonarsonur Nebúkadnesars, er konungur núna. Hann kallar hástöfum að sækja skuli vitringana hans. ‚Hver sem getur lesið þetta letur og sagt mér hvað það þýðir,‘ segir konungurinn, ‚mun fá margar gjafir og verða þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.‘ En enginn vitringanna getur lesið skriftina á veggnum né sagt þýðingu hennar.

Móðir konungsins heyrir hávaðann og kemur inn í stóra borðsalinn. ‚Vertu nú ekki svona hræddur,‘ segir hún við konunginn. ‚Það er maður í ríki þínu sem þekkir hina heilögu guði. Þegar Nebúkadnesar, afi þinn, var konungur setti hann manninn yfir alla vitringa sína. Hann heitir Daníel. Sendu eftir honum og hann mun segja þér hvað allt þetta þýðir.‘

Daníel er strax sóttur. Hann hafnar öllum gjöfum en fer í staðinn að segja frá því hvers vegna Jehóva eitt sinn lét Nebúkadnesar, afa Belsasars, víkja úr konungsstólnum. ‚Hann var mjög drambsamur,‘ segir Daníel, ‚og Jehóva refsaði honum.‘

‚Og þér var kunnugt um allt sem kom fyrir hann,‘ segir Daníel við Belsasar, ‚en samt ertu alveg eins hrokafullur og Nebúkadnesar var. Þú hefur látið koma með bikarana og kerin úr musteri Jehóva og drukkið úr þeim. Þú hefur vegsamað guði úr tré og steini en þú hefur ekki heiðrað hinn mikla skapara okkar. Þess vegna hefur Guð sent höndina til að skrifa þessi orð.‘

‚Þetta stendur skrifað,‘ segir Daníel: ‚MENE, MENE, TEKEL og UFARSIN.‘

‚MENE þýðir að Guð hefur talið ríkisár þín og leitt þau til enda. TEKEL þýðir að þú ert veginn á skálum og fundinn einskis nýtur. UFARSIN þýðir að ríki þitt er gefið Medum og Persum.‘

Jafnvel á meðan Daníel er enn að tala eru Medar og Persar byrjaðir að ráðast á Babýlon. Þeir hertaka borgina og drepa Belsasar. Skriftin á veggnum rætist þessa sömu nótt! En hvað verður um Ísraelsmenn núna? Við munum fljótlega komast að því en sjáum fyrst hvað kom fyrir Daníel.