Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 88

Jóhannes skírir Jesú

Jóhannes skírir Jesú

SJÁÐU dúfuna sem kemur svífandi niður á höfuð mannsins. Maðurinn er Jesús. Hann er nú um 30 ára. Hinn maðurinn heitir Jóhannes. Við höfum þegar heyrt svolítið um hann. Manstu eftir þegar María fór að heimsækja Elísabetu frænku sína og barnið inni í Elísabetu tók viðbragð af gleði? Ófædda barnið var Jóhannes. En hvað eru Jóhannes og Jesús að gera núna?

Jóhannes er nýbúinn að dýfa Jesú ofan í vatnið í Jórdan. Þannig eru menn skírðir. Fyrst eru þeir færðir í kaf niður í vatnið og síðan lyft upp úr því aftur. Jóhannes gerir þetta við fólk og þess vegna er hann kallaður Jóhannes skírari. En hvers vegna hefur Jóhannes skírt Jesú?

Jóhannes gerði það af því að Jesús kom og bað hann um það. Hann skírir fólk sem vill sýna að það sjái eftir því ranga sem það hefur gert. En gerði Jesús nokkurn tíma eitthvað rangt sem hann þurfti að sjá eftir? Nei, aldrei, vegna þess að hann er Guðs eigin sonur frá himni. Hann bað því Jóhannes að skíra sig af annarri ástæðu. Heyrum nú hver sú ástæða var.

Jesús var trésmiður áður en hann kom til Jóhannesar. Trésmiður býr til hluti úr tré, eins og borð, stóla og bekki. Jósef, eiginmaður Maríu, var trésmiður og kenndi Jesú þá iðn. En Jehóva sendi ekki son sinn til jarðar til að vera trésmiður. Hann hefur sérstakt verkefni fyrir hann og nú er tíminn kominn fyrir Jesú að byrja á því. Jesús biður Jóhannes að skíra sig til að sýna að hann sé nú kominn til að gera vilja föður síns. Ætli Guð sé ánægður með það?

Já, það er hann, vegna þess að þegar Jesús stendur upp úr vatninu segir rödd frá himni: ‚Þetta er sonur minn sem ég hef velþóknun á.‘ Það er líka eins og himinninn opnist og dúfa komi niður yfir Jesú. En þetta er ekki raunveruleg dúfa. Þetta lítur út eins og dúfa en er í raun og veru heilagur andi Guðs.

Jesús hefur nú um margt að hugsa og þess vegna fer hann á óbyggðan stað í 40 daga. Þangað kemur Satan til hans. Þrisvar sinnum reynir Satan að fá Jesú til að brjóta lög Guðs á einhvern hátt. En það vill Jesús ekki gera.

Jesús snýr síðan til baka og hittir nokkra menn sem verða fyrstu fylgjendur hans eða lærisveinar. Þeir heita Andrés, Pétur (einnig kallaður Símon), Filippus og Natanael (einnig kallaður Bartólómeus). Jesús og þessir nýju lærisveinar leggja af stað til Galíleuhéraðs. Í Galíleu dvelja þeir í Kana, heimaborg Natanaels. Þar fer Jesús í fjölmenna brúðkaupsveislu og gerir sitt fyrsta kraftaverk. Veistu hvaða kraftaverk það er? Hann breytir vatni í vín.