Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 100

Jesús í garðinum

Jesús í garðinum

EFTIR að Jesús og postularnir yfirgefa herbergið uppi á lofti fara þeir út í Getsemanegarðinn. Þangað hafa þeir oft komið áður. Jesús segir þeim nú að vaka og biðja. Þá gengur hann aðeins afsíðis og krýpur á kné með andlitið til jarðar og biður til föður síns á himnum.

Nokkru seinna kemur Jesús aftur til postulanna. Hvað heldur þú að þeir séu að gera? Þeir sofa! Þrisvar sinnum segir Jesús þeim að vaka en í hvert skipti kemur hann aftur að þeim sofandi. ‚Hvernig getið þið sofið á stund sem þessari?‘ spyr Jesús þegar hann kemur aftur í síðasta sinn. ‚Stundin er komin að ég verði framseldur óvinum mínum.‘

Rétt í því heyra þeir mannfjölda nálgast. Sjáðu! Mennirnir koma með sverð og barefli! Þeir bera einnig kyndla til að lýsa sér. Þegar þeir koma nær stígur maður út úr hópnum og gengur fast að Jesú. Hann kyssir hann eins og þú sérð hérna. Maðurinn er Júdas Ískaríot! Hvers vegna kyssir hann Jesú?

Jesús spyr: ‚Júdas, svíkur þú mig með kossi?‘ Já, kossinn er merki til fylgdarmanna Júdasar um að þetta sé Jesús, maðurinn sem þeir leita að. Óvinir Jesú ganga þá fram til að handsama hann. En Pétur ætlar ekki að láta þá taka Jesú átakalaust. Hann dregur fram sverðið sem hann hafði með sér og heggur til mannsins næst sér. Sverðið strýkst við höfuð mannsins og sníður af hægra eyrað. En Jesús snertir eyra mannsins og læknar það.

Síðan segir Jesús við Pétur: ‚Slíðra þú sverð þitt. Heldur þú að ég geti ekki beðið föður minn um þúsundir engla til að bjarga mér?‘ Jú, það getur hann! En Jesús biður ekki Guð um að senda engla af því að hann veit að stundin er runnin upp fyrir óvini hans að handsama hann. Hann leyfir þeim því að fara burt með sig. Við skulum fylgjast með því sem kemur fyrir Jesú núna.