Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 85

Jesús fæðist í gripahúsi

Jesús fæðist í gripahúsi

VEISTU hvert þetta litla barn er? Já, það er Jesús. Hann er nýfæddur í gripahúsi. Gripahús er staður þar sem skepnur sofa og éta. María leggur Jesú í jötuna en þar er fóðrið sett sem asnar og önnur dýr síðan éta. En hvers vegna eru María og Jósef hérna hjá skepnunum? Þetta er nú enginn staður fyrir barn að fæðast á, eða finnst þér það?

Nei. En nú skaltu heyra hvers vegna þau eru þarna. Ágústus, keisari í Róm, gaf út þá tilskipun að sérhver maður yrði að fara til fæðingarborgar sinnar til að láta skrá nafn sitt í bók. Jósef fæddist í Betlehem. En þegar hann og María komu þangað var hvergi laust herbergi fyrir þau. Þess vegna urðu þau að vera þarna hjá húsdýrunum. Og sama dag fæddi María Jesú! En eins og þú sérð er allt í lagi með hann.

Sérðu hirðana sem koma til að sjá Jesú? Þeir voru úti í haga um nóttina að gæta hjarðar sinnar og þá skein allt í einu skært ljós í kringum þá. Það var engill! Hirðarnir urðu mjög hræddir. En engillinn sagði: ‚Verið óhræddir! Ég færi ykkur góðar fréttir. Í dag fæddist Kristur Drottinn í Betlehem. Hann mun frelsa fólkið! Þið munuð finna hann reifaðan og liggjandi í jötu.‘ Skyndilega birtust margir englar og byrjuðu að lofsyngja Guð. Hirðarnir flýttu sér strax af stað til að leita að Jesú og nú hafa þeir fundið hann.

Hvað er svona sérstakt við Jesú? Veistu hver hann raunverulega er? Mundu eftir að við sögðum í fyrstu sögunni í þessari bók frá fyrsta syni Guðs. Þessi sonur vann með Jehóva við að skapa himnana og jörðina og allt annað. Jesús er þessi sonur!

Já, Jehóva tók líf sonar síns frá himni og setti það inn í Maríu. Barnið byrjaði strax að vaxa inni í henni alveg eins og önnur börn vaxa inni í mæðrum sínum. En þetta barn var sonur Guðs. Að lokum fæddist Jesús í gripahúsi í Betlehem. Skilur þú núna hvers vegna englarnir voru svona ánægðir að geta sagt fólki að Jesús væri fæddur?