Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 89

Jesús hreinsar musterið

Jesús hreinsar musterið

HÉR er Jesús sannarlega reiður. Veistu af hverju hann er svona reiður? Það er af því að þessir menn í musteri Guðs í Jerúsalem eru mjög ágjarnir. Þeir reyna að græða mikla peninga á fólkinu sem kemur þangað til að tilbiðja Guð.

Sérðu öll nautin, kindurnar og dúfurnar? Mennirnir eru að selja þessi dýr þarna alveg við musterið. Veistu hvers vegna? Vegna þess að Ísraelsmenn eiga að færa Guði dýrafórnir.

Lögmál Guðs sagði að Ísraelsmaður skyldi færa Guði fórn þegar hann gerði eitthvað rangt. Einnig við önnur tækifæri þurftu Ísraelsmenn að færa fórnir. En hvar fengu þeir dýrin til að fórna Guði?

Sumir Ísraelsmanna áttu sjálfir fugla og önnur dýr. Þeir gátu því fórnað þeim. En margir áttu engin dýr. Og sumir áttu heima svo langt frá Jerúsalem að þeir gátu ekki tekið dýrin með sér til musterisins. Þess vegna keyptu þeir þar þau dýr sem þeir þurftu að nota. En sölumennirnir tóku of hátt verð fyrir dýrin. Þeir féflettu fólkið. Auk þess áttu þeir ekki að stunda viðskipti sín í sjálfu musteri Guðs.

Það er þetta sem gerir Jesú reiðan. Hann veltir um borðum mannanna svo að peningarnir þeirra tvístrast út um allt. Hann býr sér til svipu úr köðlum og rekur öll dýrin út úr musterinu. Hann skipar mönnunum sem selja dúfurnar: ‚Takið þær burt héðan! Hættið að gera hús föður míns að stað til að græða peninga.‘

Nokkrir fylgjenda Jesú eru með honum þarna í musterinu í Jerúsalem. Þeir eru undrandi á því sem þeir sjá Jesú gera. Þá muna þeir eftir að í Biblíunni segir á einum stað um son Guðs: ‚Kærleikur til húss Guðs mun brenna í honum eins og eldur.‘

Á meðan Jesús er í Jerúsalem á páskahátíðinni gerir hann mörg kraftaverk. Eftir það leggur hann af stað frá Júdeu og fer aftur til Galíleu. En leið hans liggur um Samaríuhérað. Við skulum sjá hvað gerist þar.