Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 97

Jesús kemur sem konungur

Jesús kemur sem konungur

STUTTU eftir að Jesús hefur læknað blindu betlarana tvo kemur hann til lítils þorps nálægt Jerúsalem. Hann segir við tvo af lærisveinum sínum: ‚Farið inn í þorpið og þið munuð finna ungan asna. Leysið hann og komið með hann til mín.‘

Þeir koma með asnann út til Jesú og hann stígur á bak honum og ríður til Jerúsalem sem er skammt frá. Þegar hann nálgast borgina kemur mikill mannfjöldi út á móti honum. Flestir taka af sér yfirhafnirnar og breiða þær á veginn. Aðrir höggva greinar af pálmatrjám. Þær eru einnig látnar á veginn og fólkið hrópar: ‚Guð blessi konunginn sem kemur í nafni Jehóva!‘

Fyrr á tímum höfðu nýir konungar í Ísrael riðið inn í Jerúsalem á ungum ösnum til að sýna sig fólkinu. Þetta gerir Jesús núna. Og fólkið sýnir að það vill fá Jesú sem konung. En ekki vilja allir fá hann. Við sjáum það á því sem gerist þegar Jesús fer upp í musterið.

Í musterinu læknar Jesús blinda og halta. Þegar börnin sjá það hrópa þau og lofa Jesú. En það reitir prestana til reiði og þeir segja við Jesú: ‚Heyrir þú hvað börnin segja?‘

‚Já, það geri ég,‘ svarar Jesús. ‚Hafið þið aldrei lesið í Biblíunni þar sem stendur: „Af munni barna og brjóstmylkinga mun Guð búa sér lof?“‘ Börnin halda þess vegna áfram að lofa og hylla konung Guðs.

Viljum við ekki líkjast þessum börnum? Sumir reyna ef til vill að hindra okkur í að tala um ríki Guðs. En við munum staðföst halda áfram að segja öðrum frá því dásamlega sem Jesús mun gera fyrir fólk.

Þegar Jesús var á jörðinni var tíminn ekki kominn fyrir hann að byrja að ríkja sem konungur. Hvenær mun sá tími koma? Lærisveina Jesú langar til að vita það. Um það lesum við næst.