Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 101

Jesús líflátinn

Jesús líflátinn

SJÁÐU hvað er að gerast. Er það ekki hræðilegt! Það er verið að lífláta Jesú. Hann hefur verið festur upp á staur og naglar reknir í gegnum hendur hans og fætur. Hvers vegna skyldi nokkur vilja drepa Jesú?

Það er vegna þess að sumir hata Jesú. Veistu hverjir það eru? Einn þeirra er vondi engillinn, Satan djöfullinn. Það var hann sem gat fengið Adam og Evu til að óhlýðnast Jehóva. Það var líka Satan sem kom óvinum Jesú til að fremja þennan hræðilega glæp.

Jafnvel áður en óvinir Jesú láta negla hann á staurinn misþyrma þeir honum. Manstu hvernig þeir komu og sóttu hann í Getsemanegarðinn? Hverjir voru þessir óvinir? Já, það voru trúarleiðtogarnir. Sjáum nú hvað gerist þar á eftir.

Þegar trúarleiðtogarnir taka Jesú flýja postular hans. Þeir verða hræddir og skilja Jesú einan eftir hjá óvinunum. En postularnir Pétur og Jóhannes fara ekki langt. Þeir elta hópinn til að sjá hvað verður um Jesú.

Prestarnir fara með Jesú til Annasar, gamals manns sem hafði verið æðsti prestur. En hópurinn dvelur ekki lengi þar. Næst er farið með Jesú til bústaðar Kaífasar sem er núna æðsti prestur. Þar eru saman komnir margir trúarleiðtogar.

Í húsi Kaífasar fara fram réttarhöld. Fólk er leitt fram til að ljúga um Jesú. Allir trúarleiðtogarnir segja: ‚Það ætti að lífláta Jesú.‘ Síðan skyrpa þeir í andlitið á honum og berja hann með hnefunum.

Meðan á öllu þessu gengur er Pétur í garðinum fyrir utan. Nóttin er köld og fólkið kveikir eld. Á meðan það hlýjar sér við eldinn lítur þjónustustúlka á Pétur og segir: ‚Þessi maður var líka með Jesú.‘

‚Nei, það var ég ekki!‘ svarar Pétur.

Þrisvar segir einhver við Pétur að hann hafi verið með Jesú. En í hvert sinn neitar Pétur því. Þegar hann neitar því í þriðja sinn snýr Jesús sér við og lítur á hann. Pétur iðrar þess mjög að hafa sagt þessi ósannindi og fer burt og grætur.

Þegar sólin kemur upp á föstudagsmorgni fara prestarnir með Jesú til hins stóra ráðstefnusalar síns, en þar kemur öldungaráðið saman. Þar ræða þeir um hvað þeir eigi að gera við hann. Þeir fara síðan með hann til Pontíusar Pílatusar landstjóra í Júdeuhéraði.

‚Þetta er vondur maður,‘ segja prestarnir við Pílatus. ‚Það ætti að lífláta hann.‘ Pílatus leggur spurningar fyrir Jesú og segir síðan: ‚Ég sé ekki að hann hafi gert neitt rangt.‘ Þá sendir Pílatus Jesú til Heródesar Antípasar. Heródes er stjórnandi í Galíleu en hann býr í Jerúsalem. Heródes fær ekki heldur séð að Jesús hafi gert nokkuð rangt og sendir hann því aftur til Pílatusar.

Pílatus vill láta Jesú lausan. En óvinir Jesú vilja að öðrum fanga sé sleppt í staðinn. Það er ræningi sem heitir Barabbas. Nú er komið hádegi og Pílatus leiðir Jesú út fyrir. Hann segir við fólkið: ‚Sjáið! Hér er konungur ykkar!‘ En höfuðprestarnir hrópa: ‚Burt með hann! Lífláttu hann! Lífláttu hann!‘ Pílatus lætur þá Barabbas lausan og þeir fara burt með Jesú til að lífláta hann.

Skömmu eftir hádegi á föstudeginum er Jesús negldur á staur. Við hvora hlið Jesú hangir glæpamaður sem einnig er verið að lífláta á staur en þú sérð þá ekki á myndinni. Skömmu áður en Jesús deyr segir annar glæpamaðurinn við hann: ‚Minnstu mín þegar þú kemur í ríki þitt.‘ Og Jesús svarar: ‚Ég lofa þér að þú skalt vera með mér í paradís.‘

Er þetta ekki dásamlegt loforð? Veistu hvaða paradís Jesús er að tala um? Nú, hvar var sú paradís sem Guð skapaði í upphafi? Hér á jörðinni. Og þegar Jesús ríkir sem konungur á himni mun hann láta þennan mann rísa upp til lífs í hinni nýju paradís á jörðinni. Ætti það ekki að gleðja okkur?