Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 93

Jesús mettar mannfjölda

Jesús mettar mannfjölda

HRÆÐILEGUR atburður hefur gerst. Það er nýbúið að lífláta Jóhannes skírara. Heródías, eiginkonu konungsins, var illa við hann og hún gat fengið konunginn til að láta hálshöggva Jóhannes.

Jesús verður mjög hryggur þegar hann fréttir þetta. Hann fer á óbyggðan stað til þess að vera einn. En fólkið eltir hann. Þegar Jesús sér mannfjöldann kennir hann í brjósti um fólkið. Hann talar þess vegna við það um Guðsríki og læknar þá sjúku.

Um kvöldið koma lærisveinarnir til hans og segja: ‚Það er orðið áliðið og hér er engin mannabyggð. Sendu fólkið burt svo það geti keypt sér mat í nærliggjandi þorpum.‘

‚Það þarf ekki að fara,‘ svarar Jesús. ‚Þið getið gefið því eitthvað að borða.‘ Jesús snýr sér að Filippusi og segir: ‚Hvar getum við keypt nægan mat til að gefa öllu þessu fólki að borða?‘

‚Það mun kosta mikla peninga að kaupa nóg til að allir fái aðeins smábita,‘ svarar Filippus. Þá segir Andrés: ‚Þessi drengur, sem ber matinn okkar, er með fimm brauð og tvo fiska. En það er alls ekki nóg fyrir allt þetta fólk.‘

‚Látið fólkið setjast niður í grasið,‘ segir Jesús. Síðan þakkar hann Guði fyrir matinn og byrjar að brjóta hann í smábita. Að því búnu gefa lærisveinarnir öllu fólkinu brauð og fisk. Þarna eru 5000 karlmenn og auk þess mörg þúsund konur og börn. Allir borða sig sadda. Og þegar lærisveinarnir safna saman matarleifunum fylla þær 12 körfur!

Jesús lætur nú lærisveina sína fara um borð í bát til að sigla yfir Galíleuvatn. Um nóttina skellur á stormur og öldurnar kasta bátnum fram og aftur. Lærisveinarnir eru dauðhræddir. Þá, um miðja nótt, sjá þeir einhvern koma gangandi á vatninu í átt til sín. Þeir æpa af ótta vegna þess að þeir vita ekki hvað það er sem þeir sjá.

‚Verið óhræddir,‘ segir Jesús. ‚Þetta er ég!‘ Þeir trúa því samt ekki. Þess vegna segir Pétur: ‚Ef þetta ert þú í raun og veru, herra, segðu mér þá að ganga á vatninu til þín.‘ Jesús svarar: ‚Komdu!‘ Og Pétur stígur úr bátnum og gengur á vatninu! Skyndilega verður hann hræddur og byrjar að sökkva en Jesús bjargar honum.

Seinna gefur Jesús aftur þúsundum manna að borða. Í þetta sinn gerir hann það með sjö brauðum og fáeinum smáfiskum. Og aftur er nóg handa öllum. Er ekki dásamlegt að sjá hvernig Jesús annast fólk? Þegar hann ríkir sem konungur Guðs þurfum við aldrei að hafa neinar áhyggjur!