Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 90

Konan við brunninn

Konan við brunninn

JESÚS hefur staðnæmst til að hvíla sig við brunn í Samaríu. Lærisveinar hans eru farnir til bæjar til að kaupa mat. Konan, sem Jesús talar við, er komin til að sækja vatn. Hann segir við hana: ‚Gefðu mér að drekka.‘

Konan verður mjög hissa. Veistu hvers vegna? Vegna þess að Jesús er Gyðingur en hún er Samverji. Og flestir Gyðingar vilja ekki umgangast Samverja. Þeir vilja ekki einu sinni tala við þá! En Jesú þykir vænt um alls konar fólk. Hann segir: ‚Ef þú vissir hver það er sem biður þig um vatn myndir þú biðja hann og hann gæfi þér lífgandi vatn.‘

‚Herra,‘ segir konan, ‚brunnurinn er djúpur og þú ert ekki einu sinni með fötu. Hvaðan fengir þú þetta lífgandi vatn?‘

‚Ef þú drekkur vatn úr þessum brunni mun þig þyrsta aftur,‘ svarar Jesús. ‚En vatnið, sem ég mun gefa, getur látið menn lifa að eilífu.‘

‚Herra,‘ segir konan, ‚gefðu mér þetta vatn! Þá verð ég aldrei þyrst framar og þarf ekki oftar að koma hingað að sækja vatn.‘

Konan heldur að Jesús sé að tala um bókstaflegt vatn. En hann er að tala um sannleikann um Guð og ríki hans. Þessi sannleikur er eins og lífgandi vatn. Hann getur gefið fólki eilíft líf.

Jesús segir nú við konuna: ‚Farðu og kallaðu á manninn þinn og komdu hingað aftur.‘

‚Ég á engan mann,‘ svarar konan.

‚Rétt er það,‘ segir Jesús. ‚En þú hefur átt fimm eiginmenn og maðurinn, sem þú býrð með núna, er ekki eiginmaður þinn.‘

Konan er alveg undrandi af því að allt er þetta satt. Hvernig veit Jesús þetta? Hann veit það af því að hann er sá sem Guð lofaði að senda og Guð gefur honum þessa vitneskju. Nú koma lærisveinar Jesú til baka og þeim finnst undarlegt að sjá hann tala við samverska konu.

Hvað lærum við af öllu þessu? Þetta sýnir að Jesús er vingjarnlegur við fólk af öllum kynþáttum. Það eigum við einnig að vera. Við ættum ekki að halda að sumir menn séu slæmir eingöngu vegna þess að þeir tilheyra ákveðnum kynþætti. Jesús vill að allir menn kynnist sannleikanum sem leiðir til eilífs lífs. Og okkur ætti einnig að langa til að hjálpa fólki að læra sannleikann.