Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 86

Stjarna leiðir menn

Stjarna leiðir menn

SÉRÐU skæru stjörnuna sem einn mannanna bendir á? Stjarnan birtist þegar þeir fóru frá Jerúsalem. Mennirnir eru frá Austurlöndum og þeir skoða stjörnurnar. Þeir trúa því að þessi nýja stjarna muni leiða þá til verðandi mikilmennis.

Þegar mennirnir komu til Jerúsalem spurðu þeir: ‚Hvar er barnið sem verða mun konungur Gyðinga?‘ „Gyðingar“ er annað nafn á Ísraelsmönnum. ‚Við sáum stjörnu barnsins fyrst þegar við vorum í Austurlöndum,‘ sögðu mennirnir, ‚og við erum komnir til að tilbiðja það.‘

Þegar Heródes, sem er konungur í Jerúsalem, heyrði þetta varð hann skelkaður. Hann vildi ekki að annar konungur kæmi í sinn stað. Hann kallaði því til sín höfuðprestana og spurði: ‚Hvar á hinn lofaði konungur að fæðast?‘ Þeir svöruðu: ‚Í Betlehem, segir Biblían.‘

Heródes sagði nú við mennina frá Austurlöndum: ‚Farið og leitið að barninu. Látið mig vita þegar þið hafið fundið það. Ég vil einnig fara og tilbiðja það.‘ En í raun og veru vildi Heródes finna barnið til þess að drepa það!

Stjarnan færir sig nú á undan mönnunum til Betlehem og stöðvast yfir staðnum þar sem barnið er. Þegar mennirnir ganga inn í húsið finna þeir Maríu og Jesú litla. Þeir taka fram gjafir og gefa Jesú. En seinna varar Jehóva mennina í draumi við að fara aftur til Heródesar. Þeir fara þess vegna aðra leið til heimalands síns.

Heródes verður afar reiður þegar hann kemst að því að mennirnir frá Austurlöndum eru farnir heim. Hann gefur því út þá skipun að drepa skuli alla drengi í Betlehem, tveggja ára og yngri. En Jehóva varar Jósef fyrirfram við þessu í draumi svo að hann fer með fjölskyldu sína til Egyptalands. Seinna, þegar Jósef fréttir að Heródes sé dáinn, fer hann með Maríu og Jesú aftur heim til Nasaret. Þar elst Jesús upp.

Hver heldur þú að hafi látið nýju stjörnuna skína? Mundu að þegar mennirnir höfðu séð stjörnuna fóru þeir fyrst til Jerúsalem. Satan djöfullinn vildi drepa son Guðs og hann vissi að Heródes konungur í Jerúsalem myndi einnig reyna að drepa hann. Það hlýtur þess vegna að hafa verið Satan sem lét stjörnuna skína.