Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 103

Gegnum læstar dyr

Gegnum læstar dyr

EFTIR að Pétur og Jóhannes fara frá gröfinni, þar sem líkami Jesú hafði legið, er María þar ein eftir. Hún byrjar að gráta. Síðan lýtur hún fram og gægist inn í gröfina eins og við sáum á síðustu mynd. Þar sér hún tvo engla! Þeir spyrja hana: ‚Hvers vegna grætur þú?‘

María svarar: ‚Þeir hafa tekið burt Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa látið hann.‘ Þá snýr María sér við og sér mann. Hann spyr hana: ‚Að hverjum leitar þú?‘

María heldur að maðurinn sé garðvörðurinn og hann hafi ef til vill tekið líkama Jesú. Hún segir því: ‚Ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér hvar þú hefur látið hann.‘ En maðurinn er í raun og veru Jesús. Hann birtist núna í líkama sem María þekkir ekki. En þegar hann kallar hana með nafni veit hún að þetta er Jesús. Hún hleypur til lærisveinanna og segir: ‚Ég hef séð Drottin!‘

Seinna um daginn, þegar tveir lærisveinar eru á leið til þorpsins Emmaus, slæst maður í för með þeim. Lærisveinarnir eru mjög hryggir vegna lífláts Jesú. En þegar þeir ganga saman útskýrir maðurinn margt í Biblíunni sem lætur þeim líða betur. Þegar þeir nema staðar til að borða uppgötva lærisveinarnir loksins að þessi maður er Jesús. Þá hverfur hann og lærisveinarnir tveir flýta sér alla leiðina aftur til Jerúsalem til að segja postulunum hvað komið hafi fyrir.

Á meðan þetta er að gerast birtist Jesús einnig Pétri. Hinir komast í mikið uppnám þegar þeir heyra það. Svo koma þessir tveir lærisveinar til Jerúsalem og hitta postulana. Þeir segja þeim hvernig Jesús einnig birtist þeim á veginum. Og einmitt þegar þeir eru að segja frá þessu gerist stórkostlegur atburður. Veistu hvað það er?

Líttu á myndina. Jesús birtist þeim þarna inni í herberginu jafnvel þótt dyrnar séu læstar. En hvað lærisveinarnir eru glaðir! Er þetta ekki spennandi dagur! Getur þú talið hversu oft Jesús hefur nú þegar birst fylgjendum sínum? Telurðu fimm skipti?

Postulinn Tómas er ekki viðstaddur þegar Jesús birtist. Lærisveinarnir segja því við hann: ‚Við höfum séð Drottin!‘ En Tómas segist sjálfur verða að sjá Jesú til að geta trúað því. Átta dögum síðar eru lærisveinarnir aftur saman komnir í læstu herbergi og í þetta sinn er Tómas með þeim. Skyndilega birtist Jesús þar í herberginu. Núna trúir Tómas.