Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 112

Skipreka á eyju

Skipreka á eyju

LÍTTU á! Skipið er strandað! Það er að brotna í spón! Sérðu mennina sem hafa stokkið í sjóinn? Sumir hafa þegar náð til strandar. Er ekki Páll einn af þeim? Við skulum núna heyra hvað komið hefur fyrir hann.

Þú manst að Páll var fangi í Sesareu í tvö ár. Þá eru hann og nokkrir aðrir fangar settir um borð í skip sem á að sigla til Rómar. Þegar þeir sigla fram hjá eynni Krít skellur á mikið illviðri. Stormurinn er svo mikill að skipverjarnir missa stjórn á skipinu. Og þeir sjá hvorki til sólar á daginn né stjarna á nóttunni. Að lokum, eftir marga daga, gefa þeir sem eru á skipinu upp alla von um björgun.

Þá gengur Páll fram og segir: ‚Enginn ykkar mun týna lífi. Aðeins skipið mun farast. Í nótt kom engill Guðs til mín og sagði: „Óttast þú ekki, Páll! Fyrir keisarann í Róm skalt þú koma. Og Guð mun bjarga öllum þeim sem eru á skipinu með þér.“‘

Um miðnætti, hálfum mánuði eftir að illviðrið skall á, taka sjómennirnir eftir að þeir eru komnir upp á grynningar! Þeir eru að nálgast land! Af ótta við að rekast á kletta í myrkrinu varpa þeir akkerum. Þegar birtir af degi sjá þeir vík. Þeir ákveða að reyna að sigla skipinu beint upp í fjöruna þar.

Þegar þeir nálgast ströndina tekur skipið niðri á sandrifi og strandar. Öldurnar skella þá á skipinu og það tekur að liðast í sundur. Herforinginn á skipinu segir: ‚Allir sem eru syndir skulu fyrstir varpa sér útbyrðis og synda í land. Hinir kasti sér út á eftir þeim og haldi sér í planka eða annað brak úr skipinu.‘ Og það gera þeir. Á þennan hátt komast allir þeir 276, sem voru um borð í skipinu, klakklaust í land alveg eins og engillinn hafði lofað.

Eyjan er kölluð Malta. Eyjar- skeggjar eru alveg sérstaklega vingjarnlegir og hugsa vel um skipbrotsmennina. Þegar veðrið batnar er Páll settur um borð í annað skip og fluttur til Rómar.