Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 110

Tímóteus – nýr aðstoðarmaður Páls

Tímóteus – nýr aðstoðarmaður Páls

UNGI maðurinn, sem þú sérð hér með Páli postula, er Tímóteus. Tímóteus býr hjá fjölskyldu sinni í Lýstru. Móðir hans heitir Evníke og amma hans Lóis.

Þetta er í þriðja sinn sem Páll heimsækir Lýstru. Um það bil ári áður komu Páll og Barnabas þangað í fyrsta sinn í trúboðsferð. Og nú er Páll kominn aftur með vini sínum Sílasi.

Hvað heldur þú að Páll sé að segja við Tímóteus? Hann spyr: ‚Myndir þú vilja ferðast með Sílasi og mér? Hjálp þín kæmi okkur að góðum notum þegar við prédikum fyrir fólki á fjarlægum stöðum.‘

‚Já,‘ svarar Tímóteus, ‚það vil ég gjarnan.‘ Stuttu seinna kveður Tímóteus fjölskyldu sína og fer með Páli og Sílasi. En áður en við heyrum um ferð þeirra skulum við athuga hvað hefur drifið á daga Páls. Núna eru liðin 17 ár síðan Jesús birtist honum á veginum til Damaskus.

Þú manst að Páll fór til Damaskus til að ofsækja lærisveina Jesú en núna er hann sjálfur orðinn lærisveinn! Seinna ætla nokkrir óvinir að drepa Pál af því að þeim er mjög illa við að hann kenni um Jesú. En lærisveinarnir hjálpa Páli að flýja. Þeir láta hann síga í körfu út fyrir borgarvegginn.

Því næst fer Páll til Antíokkíu til að prédika. Í þeirri borg voru fylgjendur Krists fyrst kallaðir kristnir. Páll og Barnabas eru síðan sendir út frá Antíokkíu í trúboðsferð til fjarlægra landa. Ein þeirra borga, sem þeir koma til, er Lýstra þar sem Tímóteus á heima.

Núna, um það bil ári seinna, er Páll aftur kominn til Lýstru í annarri ferð sinni. Hvert heldurðu að Tímóteus ferðist með Páli og Sílasi? Líttu á kortið og þá geturðu lært nöfnin á nokkrum þessara staða.

Fyrst fara þeir til Íkóníum sem er þar nálægt og þá til annarrar borgar sem heitir Antíokkía. Eftir það ferðast þeir upp til Tróas og þaðan yfir til Filippí, Þessaloníku og Beroju. Sérðu Aþenu á kortinu? Páll prédikar þar. Að því búnu prédika þeir í hálft annað ár í Korintu. Að lokum eiga þeir stutta viðdvöl í Efesus. Þá sigla þeir til baka til Sesareu og ferðast heim til Antíokkíu þar sem Páll verður um kyrrt.

Tímóteus ferðast því mörg hundruð kílómetra með Páli og hjálpar honum að prédika „fagnaðarerindið“ og stofna marga kristna söfnuði. Ætlar þú að verða trúfastur þjónn Guðs eins og Tímóteus þegar þú verður stór?